Innlent

Borgarstjóri vill að húsnæðisfrumvörp Eyglóar verði samþykkt

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, undrast viðhorf sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, undrast viðhorf sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm
Dagur B Eggertsson borgarstjóri segir það mikið réttindamál að Alþingi afgreiði húsnæðisfrumvörp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Hann segir að frumvörpin gætu aðstoðað við að leysa þann hnút sem er á leigumarkaði. 

„Hækkun húsnæðisbóta kemur til móts við þá hópa sem könnun eftir könnun sýnir að standa hvað höllustum fæti á landinu. Þetta eru þeir sem eru á leigumarkaði með lægri eða millitekjur. Þannig það er mjög mikilvægt að það fari í gegn,“ segir hann.

„Í öðru lagi erum við hópa sem geta hvorki keypt né með góðu móti komið sér fyrir í öruggu leiguhúsnæði. Frumvarpið um stofnframlögin og almennu íbúðirnar miðast að því að búa til fjármögnunarkerfi fyrir öruggt húsnæði fyrir þennan hóp.“

Undrast viðhorf sjálfstæðismanna

Dagur undrast orðræðu sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hafa efasemdir um ágæti húsnæðisfrumvarpanna. 

„Það sem undrar mig er að umræðan í kringum frumvörpin og alþingi tekur ekkert mið af þessu, heldur snýst bara um allskonar aðra hluti en ekki þá lykilstaðreynd að það er mjög alvarleg staða á húsnæðismarkaði,“ segir hann. 

 „Þetta eru ekki fullkomin frumvörp en þau ávarpa mjög mikilvæga þætti sem eru tvímælalaust til bóta. Þess vegna ber að samþykkja þessi frumvörp og halda síðan áfram með öðrum umbótum sem nauðsynlegar gætu verið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×