Sport

Borgarstjóri Ríó bað Ástrala afsökunar og fékk litla kengúru að gjöf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eduardo Paes með kengúruna sína.
Eduardo Paes með kengúruna sína. Vísir/Getty
Eduardo Paes, borgarstjóri Ríó, henti olíu á eldinn á mánudaginn þegar hann svaraði Áströlum fullum hálsi eftir að ástralska Ólympíuliðið neitaði að flytja inn í Ólympíuþorpið daginn áður.

Nú eru heimamenn og ástralska Ólympíuliðið orðnir vinir á ný eftir að borgarstjórinn bað Ástrala afsökunar á ummælum sínum. Ástralska liðstjórnin grínaðist aðeins með allt saman og gaf borgarstjóranum litla kengúrudúkku með boxhanska.

Ástralir tilkynntu heiminum líka um það að þeir væru nú ánægðir með vistaverur þeirra í Ólympíuþorpinu.

Sjá einnig:Borgarstjórinn í Ríó þreyttur á ÓL-liði Ástrala: "Set kengúru fyrir utan hjá þeim“

700 manna lið Ástrala hafði þremur dögum fyrr neitað að flytja inn í Ólympíuþorpið vegna vatns- og gasleka, bera rafmagnsvíra, stíflaðra klóseta og almenns óþrifnaðar.

Ólympíuþorpið kostaði um 182 milljarða íslenskra króna og átti að vera tilbúið. Brasilíumenn þurftu að bregðast við kvörtunum Ástrala og tókst að kalla út aukalið til að ganga í þau verk sem voru óunnin.

Svo virðist vera með ástandið hafi verið verst í byggingu Ástrala en Argentínumenn og Hvít-Rússar (Belarus) kvörtuðu líka undan ástandinu.

Eduardo Paes baðst afsökunar og sagði að ástandið hafi verið verst í byggingu Ástrala. Hundruð manna unnu allar sólarhringinn til að koma öllu í lag.

„Ástralir höfðu rétt fyrir sér. Það var ekki gott ástand á vistarverum þeirra. Þetta voru mistök hjá skipulagsnefndinni. Við fórum bara í það að laga þetta. Þeir eru fluttir inn í bygginguna sína og vonandi verður allt í lagi hér eftir," sagði Eduardo Paes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×