Innlent

Borgarstjóri með nýjum ráðherrum á Víglínunni

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mæta í Víglínuna hjá Heimi Má Péturssyni fréttamanni á Stöð 2 og Vísi kl 12:20 í dag. Þátturinn er í beinni útsendingu og opinni dagskrá.

Ný ríkisstjórn tók við á ríkisráðsfundi á Bessastöðum á miðvikudag og má segja að nýr samgönguráðherra, Jón Gunnarsson, hafi byrjað með hvelli strax á tröppunum á Bessastöðum. Þar lýsti hann því yfir að hann vildi að minnsta flugbraut Reykjavíkurflugvallar sem sumir kalla neyðarbraut, verði opnuð á ný. En henni var nýlega lokað eftir dóm Hæstaréttar að undangengnum deilum borgarinnar og stjórnvalda.

Ríki og borg þurfa að eiga náin samskipti á ýmsum sviðum svo sem í húsnæðismálum. Spurningin er hvort þessi samskipti batni við komu Bjartrar framtíðar og Viðreisnar í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Leiðtogar flokkanna svara því í Víglínunni ásamt fleiru og borgarstjóri svarar meðal annars gagnrýni á að hægt gangi í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×