Innlent

Borgarstjóri í Breiðholti næstu tvær vikurnar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Í morgun þegar starfsfólk Menningarmiðstöðvarinnar Gerðubergs tók á móti borgarstjóra og starfsfólki á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
Í morgun þegar starfsfólk Menningarmiðstöðvarinnar Gerðubergs tók á móti borgarstjóra og starfsfólki á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. mynd/reykjavíkurborg.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur flutt skrifstofu sína tímabundið í Breiðholtið. Skrifstofa borgarstjóra verður í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi næstu tvær vikurnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Borgarstjóri mun funda með starfsfólki stofnana Reykjavíkurborgar í Breiðholti og heimsækja fyrirtæki í hverfinu. Hann byrjaði daginn á fundi og heimsókn í Hólabrekkuskóla, um hádegisbil fór hann í heimsókn í Fellaskóla, Fab Lab og Nýló og endar daginn á fótboltaæfingu með Leikni.

Á morgun heimsækir borgarstjóri leikskóla í hverfinu og svo verður haldinn borgarstjórnarfundur í Gerðubergi.

Á miðvikudag 22. apríl hefur verið boðað til opins hverfafundar með íbúum í Breiðholti og verður fundurinn haldinn í Fellaskóla kl. 20.00.  Til umræðu á fundinum verður allt sem tengist hverfinu, framkvæmdir, þjónustukannanir og hverfisskipulag sem er ný skipulagsáætlun fyrir öll hverfi Reykjavíkur. Hverfisskipulaginu er ætlað að auðvelda skipulag, áætlanagerð og hvetja fólk til að hafa aukin áhrif á hverfið sitt.

Þetta er annar hverfafundurinn sem borgarstjóri heldur en hann var einnig með fund í Árbæjarhverfi þegar hann starfaði þar í mars mánuði síðastliðnum. Borgarstjóri stefnir á að vera með opna fundi í öllum hverfum borgarinnar á næstu misserum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×