Skoðun

Borgarráð og trúin

Tryggvi Hrólfsson skrifar
Í aðsendri grein þann 21. júní síðastliðinn skrifar Dögg Harðardóttir athyglisverða grein um margumtalaðar tillögur mannréttindaráðs um samstarf skóla og trúar/lífsskoðunarfélaga. Meginatriði greinarinnar er að það sé mikilvægt fyrir borgarráð að styðjast við vísindalegar rannsóknir þegar tekin er ákvörðun í málinu þannig að það megi rökstyðja hana með faglegum hætti. Enn fremur heldur Dögg því fram að auðvelt sé að nálgast slíkar rannsóknir með leitarvélum, sem sagt rannsóknir á tengslum trúar við breytur eins og hamingju, heilsufar, tilgang í lífinu og sjálfsvíg svo einhver dæmi séu tekin, og að niðurstöður þeirra í heildina bendi til þess að þeim sem telja sig trúaða vegni almennt betur en hinum. Vegna þessa og vegna þess að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna segir að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar stjórnvöld gera ráðstafanir sem varða börn, sé borgarráði ekki stætt á að fara gegn vísindalegum rannsóknum og samþykkja reglur mannréttindaráðs.

Það eru ýmsar leiðir fyrir mig að svara þessum rökum Daggar. Ég get til dæmis farið að ráði hennar og leitað eftir frekari upplýsingum um þessar vísindalegu rannsóknir. Það tók mig innan við fimm mínútur að komast að því að málið er hvergi nærri eins einfalt og Dögg heldur fram, og að flest bendi til þess að það sé ekki trúin sem auki lífshamingju fólks heldur þau félagstengsl og samsemd sem trúað fólk myndar gjarnan með sér í kringum félagsstarfsemi tengdri trú sinni. Félagsstarfsemi og samsemd skipta vissulega miklu máli í skólastarfinu, en því miður kemur þetta lítið við málefninu sem Dögg lagði upp með og auk þess enginn ágreiningur um að því er ég veit til. Sjálfsagt er að skólinn leggi ríka áherslu á félagsstarf og samsemd nemenda sinna og hann getur gert það án þess að mögulega brjóta á mannréttindum nokkurs manns. Dögg er því einfaldlega sjálfri ekki stætt á að handvelja vísindalegar rannsóknir eftir því hvað hentar og alhæfa út frá þeim eftir eigin hentugleik. Þessi umræða er orðin afar þreytt. Fyrst og fremst vegna þess að langmestur meirihluti hennar, þar á meðal grein Daggar og svar mitt að ofan við henni, kemur málinu einfaldlega ekkert við.

Tillögur mannréttindaráðs snúast til dæmis ekkert um að leggja niður kristilegan menningararf þjóðarinnar, enda skipar hann áfram mikilvægan sess í skólastarfi þó áherslan sé á fræðslu en ekki iðkun, heldur snúast þær um það hvort skólinn sem stofnun á vegum borgaryfirvalda í ríki sem að nafninu til að minnsta kosti kennir sig við trúfrelsi ætti að taka þátt í trúboði. Dramatískar upphrópanir og hálfsoðnar tilvísanir í vísindalegar rannsóknir koma því málinu sjaldnast við og þar sem mannréttindi og velferð barna okkar eru gríðarlega mikilvæg málefni hvet ég alla sem vilja koma að máli til þess að halda sig við efnið.

Þeir sem hafa áhuga á því að að rýna í grein sem ég fann varðandi tengsl lífshamingju, trúar og félagstengla geta fundið hana hér: http://www.asanet.org/images/journals/docs/pdf/asr/Dec10ASRFeature.pdf



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×