Innlent

Borgarfulltrúar Framsóknar fara fram á að þing beiti sér varðandi lokun flugbrautar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina. Vísir/Pjetur
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina fara fram á að Alþingi beiti sér í málum er varða lokun neyðarbrautarinnar svokölluðu á Reykjavíkurflugvelli. Lokun brautarinnar marki upphafið að endalokum Reykjavíkurflugvallar.

Isavia lokaði fyrr í mánuðinum NA/SV-brautinni á Reykjavíkurflugvelli, samkvæmt fyrirmælum frá innanríkisráðuneytinu í kjölfar dóms Hæstaréttar. Isavia sendi innanríkisráðuneytinu og Reykjavíkurborg staðfestingu þess efnis, og var bréf Isavia lagt fram á fundi borgarráðs á fimmtudag.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, segir að mikilvægt sé að skoða málið frá öllum hliðum. Dómur Hæstaréttar hafi einungis varðað samkomulag sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi ráðherra flugmála, gerði við Reykjavíkurborg haustið 2013. Hann hafi ekkert með flugöryggi að gera.

Guðfinna segir einungis eitt í stöðunni; að Alþingi beiti sér í málinu.

„Við vonum að Alþingi vakni upp af svefninum og fari að gera eitthvað í þessu máli. Því það er bent á það í niðurstöðu héraðsdóms að það eru ákveðnar leiðir færar fyrir Alþingi, það getur bæði sett lög og ríki geta tekið eignarnámi ef það er í rauninni verið að skerða almannaheill. Það væri það réttasta í stöðunni núna að það væri að Alþingi myndi láta skoða það að skoða áhættumat að nýju, reikna út nothæfistuðulinn og síðan fara í það að skoða það hvort að þetta svæði yrði tekið eignarnámi,“ segir Guðfinna.

Hún segir lokun flugbrautarinnar undanfara að lokun Reykjavíkurflugvallar og gagnrýnir það að borgarstjórn virði að vettugi undirskriftir 70 þúsund Íslendinga sem vilja flugvöllinn áfram í Vatnsmýri.

„Með því að vera að þrengja alltaf að, það eru tvær brautir eftir núna, að taka þessa braut sem er mjög mikilvæg, þá sé ég ekki betur en að þetta sé upphafið að endalokunum, nema Alþingi grípi inn í þetta.“

Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kallar eftir því í grein í Morgunblaðinu í dag að málefni flugvallarins verði tekin upp á sumarþingi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×