Innlent

Borgarbúar ósáttir við borgarstjórann

Breki Logason skrifar
Borgarbúar eru ósáttir með störf Jóns Gnarr borgarstjóra í Reykjavík ef marka má nýja könnun Fréttablaðsins og Stöðvar tvö. Rúm fjörutíu og sjö prósent segja Jón hafa staðið sig mjög eða frekar illa.

Kosningasigur Besta flokksins í sveitastjórnarkosningunum í maí á síðasta ári er mörgum enn í fersku minni. Jón Gnarr og félagar komu þar öllum á óvart og hlutu tæp 35% atkvæða, og sex fulltrúa í Borgarstjórn.

Jón Gnarr talaði um byltingu, myndaði meirihluta með Samfylkingunni, og settist sjálfur í stól borgarstjóra.

Nú, tæpu einu og hálfu ári síðar, virðast borgarbúar hinsvegar ekki jafn sáttir með Jón, en rúm 47% borgarbúa telja Jón hafa staðið sig mjög eða frekar illa.

Tæp 28% eru hinsvegar á þeirri skoðun að Jón hafi staðið sig mjög eða frekar vel. Athygli vekur ennfremur að rétt tæp 25% segjast hlutlaus, en spurt var, Hversu vel eða illa finnst þér Jón Gnarr hafa staðið sig í embætti borgarstjóra í Reykjavík?

Jón virðist einnig njóta meiri stuðnings hjá karlmönnum en 31% segja hann hafa staðið sig vel á móti 25 prósentum kvenna. Hlutföllin voru svipuð á landsvísu, en þar eru heldur færri ósáttir og heldur fleiri hlutlausir.

Hringt var í 800 manns, fimmtudaginn 8.september, en þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×