Innlent

Borgar verður aðstoðarmaður utanríkisráðherra

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Borgar Þór Einarsson hæstaréttarlögmaður.
Borgar Þór Einarsson hæstaréttarlögmaður. vísir/þþ
Borgar Þór Einarsson hæstaréttarlögmaður hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra.

Borgar Þór er 42 ára og hefur starfað hjá CATO lögmönnum frá árinu 2014. Þá var hann formaður nefndar Kristjáns Þórs Júlíussonar, þáverandi heilbrigðisráðherra, um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum vímuefnaneyslu.

Þetta er í annað sinn sem Borgar Þór er ráðinn aðstoðarmaður ráðherra, en hann starfaði sem aðstoðarmaður Tómasar Inga Olric, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, árin 2003-2004.

Guðlaugur Þór Þórðarson tók í gær við embætti utanríkisráðherra í gær en ráðuneytið var í umsjá Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili. Gunnar Bragi Sveinsson gegndi embættinu þar til í apríl en þá var hann með tvo aðstoðarmenn á sínum snærum; fyrst Sunnu Gunnars Marteinsdóttur og Margréti Gísladóttur en Gauti Geirsson tók við af Margréti í febrúar síðastliðnum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir tók við embætti utanríkisráðherra í apríl og var hún með einn aðstoðarmann, Hrannar Pétursson.

Ráðherrum er heimilt að ráða til sín aðstoðarmann eða aðstoðarmenn, án auglýsinga. Aðstoðarmaður gegnir störfum fyrir ráðherra svo lengi sem ráðherra ákveður, en þó ekki lengur en ráðherra sjálfur. Laun og starfskjör aðstoðarmanna ráðherra eru þau sömu og laun skrifstofustjóra og eru ákvörðuð af kjararáði. Þau eru nú, eftir síðustu hækkun kjararáðs, 1.167.880 til 1.374.252 krónur á mánuði með fastri yfirvinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×