Lífið

Borðspilin eru listform

Í námi sínu lærði Emba meðal annars að útbúa borðspil, semja og þróa leikreglur, gera grafík fyrir borðspil og tölvuleiki, lærði leikjaheimspeki og listræna leikstjórnun.
Í námi sínu lærði Emba meðal annars að útbúa borðspil, semja og þróa leikreglur, gera grafík fyrir borðspil og tölvuleiki, lærði leikjaheimspeki og listræna leikstjórnun. Vísir/GVA
Ætla mætti að hefðbundin borðspil væru á undanhaldi með tilkomu fullkomnari tölvuleikja, netleikja, spjaldtölva og snjallsíma en það er öðru nær. Mikil gróska er í greininni erlendis og hafa nokkrir ungir Íslendingar meðal annars sótt menntun erlendis í hönnun og gerð borðspila. Einn þeirra er Embla Vigfúsdóttir sem lauk nýlega námi í leikjahönnun borð- og tölvuspila í Danmarks Design Skole í Kaupmannahöfn.

Hún segir borðspilin alltaf standa fyrir sínu þrátt fyrir tækniframfarir undanfarinna ára, enda sé allt öðru vísi að sitja einn heima í tölvuleik en að hitta vini sína yfir borðspili. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á borðspilum. Þegar ég var lítil var fjölskyldan með fast spilakvöld einu sinni í viku sem var mikið tilhlökkunarefni. Seinna meir spiluðum við vinirnir mikið í menntaskóla, sérstaklega Catan og Morðingja.“

Embla lærði vöruhönnun í Listaháskóla Íslands og ákvað eftir að hafa unnið í ár að bæta við sig mastersgráðu í Kaupmannahöfn. „Þegar ég var búin að vera í ár í skólanum tók ég eftir því að ég var nánast eingöngu búin að taka kúrsa í spilahönnun svo ég útskrifaðist þaðan. Þar lærði ég meðal annars að útbúa borðspil, semja og þróa leikreglur, gera grafík fyrir borðspil og tölvuleiki, lærði leikjaheimspeki og listræna leikstjórnun.“

Námið býður upp á margs konar möguleika að hennar sögn. „Sumir kjósa að demba sér eingöngu í tölvuleikjabransann, aðrir vinna í leikhúsum eða búa til sviðsmyndir í kvikmyndir. Einnig væri hægt að vinna við að gera smáforrit í síma eða verða listrænn leikstjóri í tölvuleikjum eða kvikmyndum. Sjálf hef ég mest gaman af því að búa til borðspil. Mér finnst gaman að nálgast þennan miðil sem listform, eitthvað snertanlegt sem hópur fólks getur haft gaman af saman.“

Íslendingar hafa löngum verið duglegir að spila borðspil, til dæmis í jóla- og páskafríum og uppi í sumarbústað. „Mér finnst þó svolítið leiðinlegt hvað þessi klassísku spil eins og Monopoly, Lúdó og Party og Co eru enn algeng meðal landsmanna. Fyrir mig er það dálítið eins og að vera enn að hlusta á sömu plötuna með Bítlunum og þekkja ekkert annað. Spurningaspil, partíspil og slönguspil eru ágæt til síns brúks en spil hafa upp á svo margt annað að bjóða.“

Sjálf hefur hún komið að ýmsum spennandi verkefnum undanfarið. Fyrir jólin gefur hún út sitt fyrsta spil sem heitir Hver stal kökunni úr krúsinni? sem er smáspil þar sem hver umferð tekur aðeins nokkrar mínútur en hægt er að spila eins margar umferðir og óskað er. „Spilið er eingöngu hannað fyrir Íslendinga þar sem allur texti er á íslensku og myndirnar á spilunum eru af íslenskum jólakökum og gúmmulaði.“

Í náminu bjó hún líka til frumgerðir af þremur spilum sem verða ekki gefin út að hennar sögn en voru engu að síður mjög lærdómsrík. „Það opnaði fyrir mér tækifæri að vinna með UNESCO við að búa til grafík á spil um verndun menningararfs okkar. Mér finnst ótrúlega gaman að pæla í því hvernig borðspil líta út því grafíkin getur lyft spili upp á hærri stall með vel útfærðri uppsetningu og útliti og getur um leið einfaldað flóknar regluskýringar. Fyrir mér eru borðspil listform með afmörkun; spilið þarf að vera skýrt og augljóst strax og þú berð það augum en einnig finnst mér mikilvægt að það sé gaman að horfa á spilið, sjá smáatriði í hönnun þess og fallegar lausnir sem koma skilaboðunum samt sem áður til skila.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×