Enski boltinn

Bony gæti verið á förum til West Ham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bony hefur ekki náð að festa sig í sessi í liði Manchester City frá því hann kom frá Swansea City.
Bony hefur ekki náð að festa sig í sessi í liði Manchester City frá því hann kom frá Swansea City. vísir/getty
Slaven Bilic, knattspyrnustjóri West Ham United, viðurkennir að hann hafi áhuga á að fá framherjann Wilfried Bony frá Manchester City.

West Ham er þunnskipað fram á við þessa dagana en bæði Andy Carroll og André Ayew eru frá vegna meiðsla og þá er Diafra Sakho líklega á förum frá félaginu.

Bony, sem kom til City í janúar 2015, virðist ekki vera í framtíðaráætlunum Peps Guardiola, knattspyrnustjóra félagsins, og gætið verið á förum til Hamranna.

„Hann er góður leikmaður. Hann kemur til greina því við erum að leita að leikmanni sem spilar hans stöðu,“ sagði Bilic sem vill ólmur ná í framherja áður en félagaskiptaglugginn lokar um mánaðarmótin.

„Við erum með nokkra leikmenn í sigtinu sem við erum að reyna að semja við,“ bætti Bilic við.

West Ham er með þrjú stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í ensku úrvalsdeildinni. Liðið mætir Astra Giurgiu frá Rúmeníu í seinni leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á morgun. Fyrri leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×