Innlent

Bónusgreiðslurnar samþykktar á fundi stjórnar Kaupþings

Birgir Olgeirsson skrifar
Höfuðstöðvar Kaupþings í Borgartúni þar sem nú eru höfuðstöðvar Arion banka.
Höfuðstöðvar Kaupþings í Borgartúni þar sem nú eru höfuðstöðvar Arion banka. Vísir/GVA
 Tillaga um kaupaukagreiðslur starfsmanna eignarhaldsfélags Kaupþings var samþykkt á aðalfundi stjórnar félagsins í kvöld. Frá þessu er greint á vef RÚV. Fundurinn fór fram fyrir luktum dyrum á Hilton-hótelinu í Reykjavík nú síðdegis en á vef RÚV kemur fram að fulltrúi stjórnar eignasafns Seðlabanka Íslands greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Tillagan hefur verið harðlega gagnrýnd, þar á meðal af þingmönnum og ráðherrum, en samkvæmt henni geta bónusgreiðslur til starfsmanna numið allt að einum og hálfum milljarði í heildina, sem gerir á milli 50-100 milljónir á mann.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði á Alþingi í dag að hann vildi leggja 90 til 98 prósenta skatt á bónusgreiðslur bankamanna svo tryggt væri að þau framlög slitabúana myndu ekki lenda hjá fámennum hopi heldur allri þjóðinni.

Sjá einnig: Vilja leggja himinháa skatta á bónusgreiðslurnar

Valgerður Bjarnadóttir þingmaður Samfylkingarinnar vill einnig leggja skatta á bónusgreiðslurnar. Hún sagði það endurspeglast í umræðum um bónusgreiðslurnar á þingi að þingmenn væru í ágætum tengslum við þjóðina enda gæti hún gert sér í hugarlund að um fátt annað væri rætt á kaffistofum landsins. Valgerður sagði það ekki vera svo að ekkert væri hægt að gera; það væri einfaldlega hægt að leggja mjög háa skatta á greiðslurnar.

Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins sagði fréttirnar af bónusgreiðslunum bæði ömurlegar og fyrirsjáanlegar.

Í síðustu viku líkti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þessum bónusgreiðslum við sjálftöku.


Tengdar fréttir

Þingmenn fordæma bónusgreiðslur Kaupþings

Þingmenn lykilflokka Alþingis segja fyrirhugaðar bónusgreiðslur Kaupþings vera siðlausar og engan veginn í takt við kjör almennings. Vilja endurskoða skattalöggjöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×