Viðskipti innlent

Bónusar Arion lækkuðu um 200 milljónir króna

Haraldur Guðmundsson skrifar
Arion banki er eini af stóru viðskiptabönkunum þremur sem enn greiðir kaupaukagreiðslur til starfsmanna.
Arion banki er eini af stóru viðskiptabönkunum þremur sem enn greiðir kaupaukagreiðslur til starfsmanna. Vísir/Pjetur
Arion banki skuldbatt sig í fyrra til að greiða 395 milljónir króna í kaupaukagreiðslur til starfsmanna fyrirtækisins og dótturfélaga þess. Samstæðan gjaldfærði þar af 331 milljón vegna bónusa til starfsmanna bankans. Höskuldi H. Ólafssyni bankastjóra var lofað 7,1 milljón króna í bónus ofan á 58,2 milljóna árslaun hans.

Kaupaukagreiðslurnar sem Arion banki gjaldfærði árið 2015 námu 599 milljónum króna að launatengdum gjöldum meðtöldum. Bónusar til starfsmanna fyrirtækisins lækkuðu því um 204 milljónir milli ára. Greiðslu 40 prósenta kaupaukans er frestað um þrjú ár í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins (FME) um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja.

Á árinu 2016 lofaði Arion banki einnig að greiða níu framkvæmdastjórum bankans samtals 30,3 milljónir í bónusa. Í árslok 2016 nam skuldbinding vegna kaupaukakerfis þess 1.453 milljónum króna samanborið við 1.056 milljónir árið á undan. Alls störfuðu 1.239 manns hjá samstæðu Arion banka og dóttur­félögum í árslok 2015 og þar af 869 hjá bankanum. Laun og tengd gjöld námu 16,7 milljörðum árið 2016 samanborið við 14,9 milljarða árið áður. Í ársreikningi bankans, sem fyrirtækið birti á mánudag, var bent á að kjarasamningsbundnar launahækkanir, sem tóku gildi um áramótin 2015/2016, hækkuðu launakostnað samstæðunnar verulega. Því hafi verið leitað leiða til að draga úr launakostnaði og ákveðið að fækka starfsfólki bankans um sex prósent. Þar er vísað til þess þegar Arion sagði 46 starfsmönnum af öllum sviðum bankans upp í lok september síðastliðins.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×