Fótbolti

Bonucci: Ég ætla ekkert að klappa fyrir framherjum Barcelona

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luis Suárez, Lionel Messi og Neymar.
Luis Suárez, Lionel Messi og Neymar. vísir/getty
Ítalíumeistarar Juventus mæta Spánarmeisturum Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á laugardaginn.

Börsungar eru sigurstranglegri enda hefur liðið spilað frábærlega á leiktíðinni og er nú þegar búið að vinna deildina á Spáni og bikarinn. Liðið sækist því eftir þrennunni.

Ekki nóg með að varnarleikurinn hefur verið betri en oft áður þá er sóknarleikurinn hreint magnaður með MSN-þríeykið; Messi, Neymar og Suárez, fremst í flokki.

Þessir ágætu menn eru samtals búnir að skora 120 mörk fyrir Katalóníurisann á leiktíðinni og það verður erfitt fyrir Juventus sð stöðva þá.

„Um hvað hugsa ég þegar ég sé þessa þrjá menn spila? Ég klappa ekkert fyrir þeim,“ segir Leonardo Bonucci, varnarmaður Juventus.

„Auðvitað er þetta ógnvekjandi framlína en Barca er ekkert bara þessir þrír menn. Þetta er liðsheild sem spilar vel saman,“ segir varnarmaðurinn.

Juventus hefur ekki unnið Meistaradeildina síðan 1996 þegar liðið lagði Ajax í úrslitaleik, en Juventus fór í úrslit 1997, 1998 og 2003.

Barcelona hefur orðið Evrópumeistari fjórum sinnum og lyfti síðast bikarnum á Wembley eftir sigur á Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×