Innlent

Bongó-blíða á morgun

Jakob Bjarnar skrifar
Glæsilegt veður er framundan, á morgun, logn og blíða sumarsól, en verra fyrir austan.
Glæsilegt veður er framundan, á morgun, logn og blíða sumarsól, en verra fyrir austan.
B O G Ó ... bongó-blíða blasir við í veðurkortunum fyrir morgundaginn. Fyrir þá sem staddir eru á Suð-Vesturlandi. Menn ættu að draga fram stuttbuxurnar og sólarkremin. Verra fyrir austan og norðan. „Já, svona um það bil,“ segir Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. „En það þykknar upp annað kvöld og gæti orðið rigning aðra nótt.“

Jæja, er á meðan er. Júnímánuði er um það bil að ljúka og við erum undir meðaltalinu, að sögn Elínar Bjarkar, sé miðað við 1961 til 1990. „Stykkishólmur er aðeins yfir. Allar aðrar stærri veðurstöðvar eru undir einni og hálfri gráðu síðastliðinna tíu ára. Þetta er til dagsins í gær,“ segir Elín Björk og rýnir í tölurnar að ósk Vísis. „Næstu þrír dagar gætu aðeins híft okkur upp. En, það eru fáir dagar eftir í mánuðinum.“

Veðurfræðingurinn er heldur í að skrúfa niður í væntingum hins káta blaðamanns sem er þakklátur fyrir veðrið í dag og á morgun. Veðrið vestan til er ljómandi gott en það þýðir hins vegar að það er skýjað og votviðrasamt austan og norðan til landsins. Ef gott er hér suðvestan lands er það verra hinum megin landsins. Taka má nafnið á vindáttinni og fá þá útkomu. Austanáttin er góð á Vesturlandinu, þegar vindur kemur af hafi er yfirleitt skýjað með því. „Hann er að hvessa aftur. Ástandið suður í Öræfum er með vindhviðum og rigningu. En, það virðist lítil breyting í veðri. Við erum í þessum austlægu áttum núna, með bjartviðri vestan til. Þó er útlit fyrir að það verði úrkoma á höfuðborgarsvæðinu, væta hér og þar þegar líður á vikuna,“ segir Elín Björk.

Og, þannig er það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×