Enski boltinn

Bolton mun bjóða Eiði Smára nýjan samning

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Neil Lennon, knattspyrnustjóri Bolton, hefur staðfest við enska fjölmiðla að Eiður Smári Guðjohnsen sé meðal þeirra leikmanna sem muni fá samningstilboð frá félaginu innan skamms.

Eiður Smári gekk í raðir Bolton seint á síðasta ári eftir að hafa verið án félags í nokkra mánuði. Hann sneri þar með aftur til félagsins sem hann yfirgaf fjórtán árum áður en endurkoma Eiðs Smára hefur heppnast afar vel.

Lennon sagði að Eiði Smára, Emile Heskey og markverðinum Adam Bodgan yrðu boðnir nýir samningar sem tækju við af þeim sem renna út nú í lok tímabilsins.

„Þeir [Eiður Smári og Heskey] hafa lagt gríðarlega mikið af mörkum til félagsins. Ef okkur þætti eitthvað annað þá myndum við segja þeim það. En áhrif þeirra hafa verið afar mikil, ekki síst í búningsklefanum.“

„Heskey hefur verið í sérflokki og Eiður hefur skorað sex mörk í síðustu átján leikjum sínum. Hann er kominn aftur í íslenska landsliðið og það á góðan möguleika á að komast á EM í Frakklandi. Það yrði við hæfi ef hann endar sinn feril þar.“


Tengdar fréttir

Eiður skoraði í öðrum leiknum í röð

Eiður Smári Guðjohnsen var aftur á skotskónum þegar Bolton vann öruggan 0-3 sigur á Cardiff á útivelli í ensku B-deildinni í fótbolta í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×