Enski boltinn

Bolton getur ekki greitt leikmönnum laun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ekkert félag hefur leikið fleiri tímabil í efstu deild á Englandi en Bolton, alls 73.
Ekkert félag hefur leikið fleiri tímabil í efstu deild á Englandi en Bolton, alls 73. Vísir/Getty
Bolton tilkynnti á heimasíðu sinni í dag að leikmenn liðsins væru ekki enn búnir að fá greidd laun fyrir nóvembermánuð. Í yfirlýsingunni kemur fram að vandamálið tengist eignarhaldi félagsins utan vallarins, eins og það er orðað.

Enn fremur er sagt að stjórn félagsins væri að reyna að leysa vandann og myndi funda með leikmönnum á morgun.

Fjárhagsvandræði félagsins hafa reynst liðinu erfið en það er nú í neðsta sæti ensku B-deildarinnar með einungis ellefu stig að loknum sautján leikjum. Bolton hefur unnið aðeins einn leik allt tímabilið og skorað aðeins ellefu mörk.

Eiður Smári Guðjohnsen kom aftur til félagsins á síðustu leiktíð eftir fjórtán ára fjarveru en samdi ekki aftur við það í sumar. Bolton hefur síðustu ár haft sterka tengingu við Ísland en Guðni Bergsson, Grétar Rafn Steinsson og Arnar Gunnlaugsson léku með því á sínum tíma.

Bolton er sagt skulda um 173 milljónir punda, jafnvirði 35 milljarða króna. Félagið er til sölu og mun hópur undir stjórn Dean Holdsworth, fyrrum leikmanns liðsins, vera áhugasamur um að kaupa það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×