Sport

Bolt ætlar að hlaupa 200 metra á undir 19 sekúndum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Usain Bolt.
Usain Bolt. vísir/getty
Fljótasti maður allra tíma, Usain Bolt, hefur hafið undirbúning sinn fyrir ÓL í Ríó á næsta ári.

Sem fyrr ætlar Bolt sér stóra hluti. Hann hefur fulla trú á því að hann geti bætt heimsmetið í 200 metra hlaupi og það sem meira er þá telur hann sig geta hlaupið metrana 200 á undir 19 sekúndum.

„Mig langar rosalega að hlaupa 200 metrana á undir 19 sekúndum. Það er eitt af mínum aðalmarkmiðum," sagði Bolt en það væri heldur betur sögulegt ef honum tækist það.

Hann á heimsmetið sem er 19,19 sekúndur. Bolt á einnig heimsmetið í 100 metra hlaupi en það er 9,58 sekúndur.

„Að hlaupa 200 metra á undir 19 sekúndum er eitt af því erfiðasta sem hægt er að gera í íþróttinni. Það verður erfitt að finna rétta daginn og rétta hlaupið til þess að bæta metið. Það verður allt annað en auðvelt en ég hef trú á því að ég geti það."

Bolt stefnir á að verða fyrsti maðurinn í sögunni til þess að vinna gullverðlaun á þrem Ólympíuleikum í röð í spretthlaupum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×