Erlent

Bókhaldari nasista í Auschwitz biðst fyrirgefningar

Atli Ísleifsson skrifar
Oskar Gröning er líklegast einn sá síðasti sem leiddur verður fyrir rétt fyrir þátt sinn í útrýmingarbúðum þýskra nasista.
Oskar Gröning er líklegast einn sá síðasti sem leiddur verður fyrir rétt fyrir þátt sinn í útrýmingarbúðum þýskra nasista. Vísir/AFP
Réttarhöld gegn hinum 93 ára Oskar Gröning, fyrrum bókhaldara í útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz, hófust í morgun. Hann er grunaður um að hafa átt þátt í morðunum á um 300 þúsund mönnum.

Gröning er líklegast einn sá síðasti sem leiddur verður fyrir rétt vegna aðildar sinnar að grimmdarverkunum í útrýmingarbúðum þýskra nasista í síðari heimsstyrjöldinni.

Gröning baðst fyrirgefningar þegar hann mætti fyrir rétt í morgun. „Í mínum huga er enginn vafi á því að ég ber siðferðislega ábyrgð.“ Hann sagðist hafa þekkt til þess á sínum tíma að fjöldi gyðinga hafi verið leiddir inn í gasklefa og teknir þar af lífi. BBC greinir frá.

„Ég bið um fyrirgefningu,“ sagði Göring þar sem á áttunda tug eftirlifenda og aðstandenda fórnarlamba voru saman komnir. „Þið megið nú úrskurða hvort ég beri einhverja ábyrgð samkvæmt lögunum.“

Gröning hafði það verkefni að reikna og skrá þá peninga sem fangarnir höfðu með sér þegar þeir komu fyrst til búðanna. Verkefni hans var einnig að koma í veg fyrir að nýir fangar kæmust að þeim fjöldamorðum sem þar voru stunduð.

Áætlað er að um milljón manns hafi látið lífið í útrýmingarbúðunum. Gröning á yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsi, verði hann fundinn sekur.

Andstætt við aðra þá sem störfuðu í Auschwitz hefur Gröning talað opinskátt um það sem átti sér stað í búðunum. Hefur hann ritað sjálfsævisögu, látið taka við sig viðtöl og tekið þátt í gerð fjölda heimildarmynda.

Búist er við að reéttarhöldum ljúki þann 29. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×