Lífið

Bókarinn á Hróaskeldu: „Ég elska íslenska tónlist"

Stefán Árni Pálsson skrifar
Nordic Playlist vefsíðan er í sérstöku samstarfi við Hróaskelduhátíðina á þessu ári og senda út fréttir frá henni daglega frá 1. – 5. júlí.  Ritstjóri síðunnar, Francine Gorman, fylgist einnig með Rising og Apollo sviðunum en þar er búin að vera dagskrá í gangi síðan á sunnudag. Hún náði tali af Stefan Gejsing sem er aðalbókari Hróarskelduhátíðarinnar og ræddi meðal annars við hann um íslensku listamennina á hátíðinni og hvernig hann velur hljómsveitirnar yfir höfuð.

Nordic Playlist er vegvísir

Stefan segist hafa mikið dálæti á Nordic Playlist og að hann og kollegar hans noti síðuna til að fylgjast með því sem sé að gerast í tónlist á Norðurlöndum. Hann segir bæði áhugavert að fylgjast með lögunum sem eru valin á listann og einnig listamennina sem taka þá saman. Þetta sé einskonar vegvísir fyrir fólk í tónlistargeiranum.

Kem árlega á Iceland Airwaves

Stefan bókaði fjórar íslenskar hljómsveitir á Hróarskeldu á þessu ári. Hann segist elska íslenska tónlist og komi á Iceland Airwaves árlega til að fylgjast með. Hann segir Grím Atlason, framkvæmdastjóra Iceland Airwaves, hafa bent sér á að fara og sjá Kippa Kanínus í Hörpu í fyrra og ákvað að bóka bandið í framhaldinu.

Stefan sá síðan Young Karin og féll alveg fyrir þeim. Hann segir söngkonuna Karin eiga framtíðina fyrir sér. Hann hefur trú á að Danir sem og alþjóðlegir áhorfendur eigi eftir að taka eftir þessu bandi.

Vök sá Stefan á By:Larm fyrir á þessu ári.  Hann segist hafa verið dolfallinn á stórkostlegum tónleikum með þeim og þau séu sú hljómsveit sem að hann hafi hlustað mest á undanfarið ár. Margrét Rán segist hafa farið þrisvar á Hróarskeldu, fyrst 15 ára gömul og það sé mikill heiður fyrir hana að fá spila á hátíðinni.

Fjórða bandið sem Stefan nefnir er Vintage Caravan. Hann segir sögu þeirra sérstaka. Þeir hafi flutt til Sønderborg sem er nálægt þýsku landamærunum.

„Yfirleitt flytja bönd til Kaupmannahafnar en Vintage Caravan völdu að vera nálægt þýska markaðnum. Mér fannst það skemmtilegur vinkill í þeirra sögu,” segir Stefan og bætir við að hann hafi mikið dálæti á hljómsveitinni sem sé með stórkostlega sviðsframkomu.

Nordic Playlist sendir út pistla um hátíðina daglega sem birtast á www.youtube.com/nordicplaylist 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×