Innlent

Bókanastríð í bæjarráði

Benedikt Bóas skrifar
Birkir Jón Jónsson.
Birkir Jón Jónsson.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi og Birkir Jón Jónsson, áheyrnarfulltrúi Framsóknarflokks, tókust á síðasta bæjarráðsfundi vegna fyrirspurnar sem Kristinn Dagur Gunnarsson, varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, lagði fram í mars í fyrra og var ekki svarað fyrir en í lok árs 2016.

Birkir Jón kvaðst í bókun gera alvarlegar athugasemdir við hversu seint svar barst við fyrirspurninni sem varðað hafi kostnað vegna húsnæðismála stjórnsýslu Kópavogsbæjar.

Fulltrúar meirihlutans í bæjarráði bókuðu á móti að fyrirspurnin hafi varðað fleira en kostnað og verið pólitísk. „Fyrirspurnin er til að gera stjórnsýslu bæjarins tortryggilega og er ómakleg.“ bókuðu fulltrúar meirihlutans.

"Það er með ólíkindum að pólitískt kjörinn bæjarstjóri þurfi rúma átta mánuði til að svara fyrirspurn sem hann telur pólitísks eðlis. Gildihlöðnum ummælum bæjarstjóra um stjórnsýslu bæjarins sem fram kom í bókun hans er vísað á bug,“ bókaði þá Birkir Jón.

„Ég vil ítreka að Birkir Jón Jónsson sat í umræddri nefnd og hafði allar þessar upplýsingar,“ bókaði Ármann þá.

„Fyrirspurnin var frá Kristni Degi Gissurarsyni,“ ítrekaði Birkir Jón þá í sinni lokabókun sem bæjarstjórinn botnaði síðan: „Varabæjarfulltrúa Framsóknarflokksins.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

vísir/anton



Fleiri fréttir

Sjá meira


×