Innlent

Bókaást Íslendinga til umfjöllunar í kanadískum fjölmiðlum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Bókaást Íslendinga þykir fréttnæm í Kanada.
Bókaást Íslendinga þykir fréttnæm í Kanada.
Fjallað var um bókaást Íslendinga í frétt sem birtist í kanadíska miðlinum The Gazette, sem er í borginni Montreal í Kanada. The Gazette er stærsti miðillinn á ensku í Qubec í Kanada og var stofnaður árið 1778.

Í fréttinni er fjallað um hversu ótrúlega mikið magn er gefið út af bókum hér á landi. Hlutfallslega eru fleiri rithöfundar hér á landi en annarsstaðar á Norðurlöndunum. Á Íslandi eru 3,5 rithöfundar á hverja þúsund íbúa, sem er tvöfalt hærra í Skandinavíu.

„Bókmenntir hafa alltaf verið hluti af sjálfsmynd Íslendinga,“ segir í fréttinni og er fjallað um Íslendingasögurnar, Eddukvæðin og sögu íslensku þjóðarinnar.

Rætt er við rithöfundinn Sjón sem segir: „Okkur þykir að framlag okkar til heimsbókmenntana vera eitthvað til þess að taka eftir.“ Hann segir að bókmenntir séu arfleið íslensku þjóðarinnar. „Við eigum engar stórar kirkjur, í raun engin málverk úr fortíðinni, engar symfóníur. Í raun eru bókmenntirnar eini þráðurinn í okkar menningararfleið,“ bætir hann við.

Í fréttinni er einnig fjallað um útgáfu Bókatíðinda, sem þykir afar fréttnæm. Kemur fram að í Bókatíðindum sé fjallað um 90 prósent þeirra titla sem gefnir eru út ár hvert og að upplag þeirra sé svipað IKEA-bæklingum. Þetta, eins og segir í frétt The Gazette, eru tveir stærstu bæklingarnir sem koma út hér á landi sem hafi í för með sér tvo mestu álagspunkta ársins fyrir póstburðarfólk á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×