Handbolti

Bogdan heiðursgestur í Víkinni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bogdan Kowalczyk á æfingu hér á landi.
Bogdan Kowalczyk á æfingu hér á landi. Vísir/Sveinn
Bogdan Kowalczyk, mjög sigursæll þjálfari handboltaliðs Víkinga á áttunda og níunda áratugnum verður sérstakur heiðursgestur Víkinga í Víkinni í kvöld.

Víkingar taka þá á móti Fjölni í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi umspilsins um sæti í Olís-deild karla en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki tryggir sér sæti í deild þeirra bestu.

Það er búist við þúsund manns á leikinn í kvöld og það verður því mikilli stemmningu í Víkinni. Leikurinn hefst klukkan 19.30.

Bogdan Kowalczyk fékk sérstök heiðursverðlaun um helgina fyrir framlag sitt til íslenska handboltans en hann gjörbreytti gengi handboltaliðs Víkinga og náði einnig frábærum árangri með landsliðið.

Undir stjórn Bogdan varð Víkingsliðið Íslandsmeistari fjögur ár í röð frá 1980 til 1983 og liðið vann einnig bikarinn 1979 og 1983.  Árið 1983 tók hann við íslenska landsliðinu og þjálfaði það með frábærum árangri til ársins 1990.

Víkingsliðið sem Bogdan þjálfaði 1979-80 var um helgina valið besta karlalið allra tíma.

Áður en Bogdan kom til Íslands haustið 1978 var hann leikmaður og þjálfari Slask Wroclaw sem urðu pólskir meistarar sex ár í röð og léku til úrslita á móti Magdeburg í Evrópukeppni meistaraliða.

Í liðinu voru margir af bestu handboltamönnum heims og án nokkurs vafa, besta skytta sem heimurinn hefur nokkrum tímann átt, Jerzy Klempel, sem er nú látinn.

Eftir dvölina á Íslandi þjálfaði Bogdan í eitt ár í Austurríki en hefur síðan starfað við þjálfun í heimalandi sínu. Hann hefur búið til marga af bestu leikmönnum Póllands í dag.

Má þar nefna markvörðurinn Slawomir Szmal sem Bogdan sá fimmtán ára gamlan og sagði þegar hann sá fyrst, þessi getur orðið sá besti í heimi.  Það stóðst að sjálfsögðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×