Innlent

Boðuð áminning varð aldrei formleg

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Minnihluti stjórnar Hafnarfjarðarhafnar vill úttekt innanríkisráðuneytisins á áminningarmáli starfsmanns.
Minnihluti stjórnar Hafnarfjarðarhafnar vill úttekt innanríkisráðuneytisins á áminningarmáli starfsmanns. Fréttablaðið/Stefán
„Starfsmanni hafnarinnar var aldrei veitt áminning,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, vegna fréttar í Fréttablaðinu síðastliðinn föstudag.

Í fréttinni sagði að tiltekinn hafnarstarfsmaður hefði fengið áminningu sem síðar hefði verið dregin til baka. Steinunn segir þetta ekki rétt heldur hafi farið af stað áminningaferli „þar sem viðkomandi var tilkynnt með bréfi að það sé til skoðunar að veita áminningu,“ segir upplýsingafulltrúinn og kveður ferlið vera þannig að starfsmaðurinn fái tækifæri til að koma með athugasemdir.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarfjarðar.
„Málið fór aldrei lengra og í kjölfarið var honum tilkynnt að það yrði látið niður falla. Þannig að formleg áminning átti sér aldrei stað,“ undirstrikar Steinunn.

Þá segir Steinunn ekki rétt sem fram kom í máli Gylfa Ingvarssonar, meðlims hafnarstjórnar, að starfsmaður R3 ráðgjafar hafi rætt við fyrrnefndan hafnarstarfsmann um málefni hafnarinnar.

„Ráðgjafafyrirtækið hefur ekki komið að málefnum Hafnarfjarðarhafnar,“ vísar upplýsingafulltrúinn í svör sem Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri lagði fram í bæjarráði í lok mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×