Innlent

Boðið til Íslands eftir hnífstungu á EM: Trúa vart góðvildinni sem þau mæta á Íslandi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Adam og Catherine eiga erfitt með að lýsa þakklætinu sem þau finna fyrir í garð Íslendinga.
Adam og Catherine eiga erfitt með að lýsa þakklætinu sem þau finna fyrir í garð Íslendinga. vísir/anton brink
Adam Williams, 25 ára breskur lögregluþjónn og stuðningsmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, sem stunginn var eftir leik Íslands og Frakklands á Evrópumótinu í fótbolta í sumar, er kominn hingað til lands ásamt unnustu sinni. Hann hyggst sjá leiki Íslands gegn Finnlandi og Tyrklandi í undankeppni heimsmeistaramótsins á Laugardalsvelli.

Adam komst í fréttirnar eftir að ókunnugur maður réðst á hann vopnaður hnífi eftir leik Íslands og Frakklands. Bati hans hefur verið snöggur og hann er snúinn aftur til fyrri starfa.

„Ég hef verið að sinna skrifstofuvinnu hjá lögreglu að undanförnu en býst við að snúa aftur út á götuna þegar ég kem heim frá Íslandi.“

Hannes Freyr ásamt Bretunum við Tjörnina í gær.Vísir/Anton Brink
Eftir að fréttir bárust af árásinni settu íslenskir stuðningsmenn sig í samband við aðila hér heima með það að marki að bjóða parinu hingað til lands og á leik með landsliðinu. Hannes Freyr Sigurðsson, gallharður stuðningsmaður Íslands, fór fyrir því verkefni. Einnig hófst söfnun til styrktar Adam en hann hefur í hyggju að afhenda Barnaspítala Hringsins og Landsbjörg hluta upphæðarinnar sem safnaðist.

„Það sem gerðist eftir árásina, hvernig Íslendingar brugðust við, við trúðum því ekki. Vinir okkar heima trúðu því ekki heldur. Þetta er í raun lygilegt. Hlutir sem þessir fá þig til að öðlast trú á mannkyninu,“ segir Adam. Hann vill endurgjalda þá góðmennsku með því að gefa til baka hluta peninganna sem söfnuðust. „Ísland og Íslendingar studdu mig í gegnum þá erfiðleika sem ég gekk í gegnum. Ef ég get orðið Íslendingum að liði með þessu móti þá geri ég það með bros á vör.“

„Ísland er afar fallegt og við erum mjög spennt yfir því að verja næstu átta dögum hérna,“ segir Adam en hann og Catherine Janes, unnusta hans, lentu hér í gær. Hann hlakkar mjög til leikjanna tveggja en bíður þess einnig með eftirvæntingu að komast í ýmsar dagsferðir meðan á fríi þeirra stendur.

„Við Catherine viljum koma á framfæri einlægum þökkum til Íslendinga og allra þeirra sem aðstoðuðu okkur. Við trúum þessu varla ennþá,“ segir Adam að lokum. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×