Innlent

Boðar aukin fjárútlát til heilbrigðis- og menntastofnana

Bjarki Ármannsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir aukið svigrúm byrjað að myndast vegna uppgjörs slitabúa bankanna.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir aukið svigrúm byrjað að myndast vegna uppgjörs slitabúa bankanna. Vísir/Vilhelm
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra boðaði aukin framlög til heilbrigðis- og menntastofnana á næstunni í ræðu sinni á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins í dag. Þá segir hann að „líklegt“ megi telja að það dragi til tíðinda í haftamálum.

Í ræðunni sagði Sigmundur meðal annars að gert sé ráð fyrir að framlög ríkisins til Landspítalans verði á næsta ári þau mestu frá árinu 2008. Þá hafi framlög til heilbrigðis- og félagsmála nú náð þeirri stöðu sem þau voru í „á útgjaldaárunum miklu 2007 og 2008.“

„Svigrúmið margumrædda vegna uppgjörs slitabúa bankanna, sem eru í eigu kröfuhafanna margumræddu, er þegar byrjað að myndast með skattlagningu sem nemur tugum milljarða á ári og telja má líklegt að það dragi enn frekar til tíðinda í haftamálum áður en langt um líður,“ sagði Sigmundur einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×