Erlent

Boða endurkomu loðfílanna

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Eftirlíking af loðfíl
Eftirlíking af loðfíl Nordicphotos/AFP
Vísindamenn í Bandaríkjunum eru langt komnir með að endurvekja loðfíla, dýrategund sem varð útdauð fyrir fjögur þúsund árum. Þeir notast við erfðatækni og reikna með því að innan tveggja ára verði fósturvísir loðfíls, eða mammúts, orðinn að veruleika. Allmörg ár geti þó liðið þangað til fullburða dýr geti orðið til.

Vinnan felst í því að blanda saman erfðaefni úr fílum og loðfílum, þannig að útkoman verði blanda af venjulegum Asíufíl og hinum útdauða loðfíl.

„Satt að segja yrði þetta líkara fíl, en með ýmis einkenni loðfíla,“ segir George Church, vísindamaðurinn sem stjórnar þessu verki.

Dýrið yrði með lítil eyru og loðið, eins og loðfílar, fitulag undir húðinni og blóð sem hæfir betur köldu loftslagi en því heita loftslagi sem fílar eru vanir að búa við.

Stefnt er að því að geta á endanum látið fósturvísi vaxa í einhvers konar gervi-móðurkviði frekar en að láta fílskú ganga með fóstrið, sem gæti reynst áhættusamt. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×