Innlent

Blóðlæknirinn segist útbrunninn af álagi

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
„Ég treysti mér ekki lengur til að vinna við þessar aðstæður,“ segir Brynjar Viðarsson, sérfræðingur í blóðsjúkdómum, um ástæður uppsagnar sinnar.
„Ég treysti mér ekki lengur til að vinna við þessar aðstæður,“ segir Brynjar Viðarsson, sérfræðingur í blóðsjúkdómum, um ástæður uppsagnar sinnar. Vísir/Vilhelm
Brynjar Viðarsson, sérfræðingur í blóðsjúkdómum, sagði upp í morgun. Hann segist þreyttur á stöðunni og að hann geti ekki lengur unnið við þær aðstæður sem hér. Í uppsagnarbréfinu sem hann afhendi yfirlækni í morgun segist hann vera gjörsamlega útbrunninn.

Uppsagnarbréf Brynjars.
„Ég treysti mér ekki lengur til að vinna við þessar aðstæður,“ segir Brynjar í samtali við Vísi. „Það eru 14 ár síðan ég kom heim og það hefur, ef eitthvað er, aukist álagið smám saman. Upphaflega var í 100 prósent starfi en er núna kominn niður í 70 prósent en er samt að vinna 100 prósent. Ég þarf bara að hlaupa hraðar og hef minni tíma til að sinna sjúklingum eins og þeim á að vera sinnt.“

Brynjar segir að staðan sé óforsvaranleg gagnvart sjúklingunum. Hann sér ekki teikn um að staðan muni breytast á næstunni en heldur þó í vonina. „Ég sé ekki að hlutirnir verði neitt betri á næstu árum. Ég hef fengið mig fullsaddan af þessum aðstæðum,“ segir hann.

Hann er ekki búinn að gera upp við sig hvað við taki hjá honum en hugsanlega fetar hann í fótspor annarra heilbrigðisstarfsmanna sem snúið hafa til starfa á Skandinavíu. „Ég er náttúrulega 30 prósent á stofu sem ég kem til með að halda áfram á í einhvern tíma en það getur vel verið að ég skoði hlutastarf á Skandinavíu,“ segir hann.

„Ég er bara ekki búinn að gera það upp við mig. Ég vona að hlutirnir breytist, þó það gerist ekki á næsta ári að einhverjir nýir sérfræðingar komi, en þannig að maður sjái smá ljós í myrkrinu. Þá gæti ég hugsanlega endurskoðað afstöðu mína,“ segir hann og bætir við: „Maður getur ekki boðið sjúklingunum sínum upp á þetta.“

Páll Torfi var ekki bjartsýnn á stöðuna þegar fréttastofan ræddi við hann um uppsögnina.Vísir/JAK
Brynjar segir að ákvörðunin hafi verið lengi í býgerð en hann afhenti uppsagnarbréfið í morgun. Í samtali við fréttastofu fyrr í dag sagði Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir blóðmeinafræðideildar, að staðan væri svört. „Á blóðlækningadeildinni liggur veikasta fólk Landspítalans,“ sagði hann. „Þegar að það fækkar læknum sem að sinna því þá lætur eitthvað undan. Menn bara gefast upp og brenna út.“

Ekki er útilokað að Brynjar hætti við uppsögnina. „Það eru engir nýir sérfræðingar að koma heim, það er engin nýliðun, við verðum bara eldri og þreyttari sem fyrir erum. Þessu þarf að snúa við. Ef að það gerist þá verð ég bjartsýnn en það þarf eitthvað að gerast,“ segir hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×