Innlent

Blóðlæknir segir upp störfum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Staðan er ekki björt á Landspítalanum eftir uppsögn sérfræðings í blóðlækningum í morgun.
Staðan er ekki björt á Landspítalanum eftir uppsögn sérfræðings í blóðlækningum í morgun. Vísir/Vilhelm
Blóðlæknir á Landspítalanum og rannsóknarstofu í blóðmeinafræði hefur sagt upp störfum. Uppsögn hans tekur gildi 1. janúar næstkomandi. Læknirinn hefur unnið á spítalanum síðastliðin fjórtán ár. Yfirlæknir blóðmeinafræðideildar segir uppsögnina mjög alvarlega.

Páll Torfi segist ekki vera bjartsýnn á framhaldið; blóðlæknar vaxi ekki á trjánum.Vísir/JAK
Svartsýnn á stöðuna

„Ég get ekki sagt að ég sé voðalega bjartsýnn í dag. Hefðirðu hringt í mig í morgun klukkan níu þá væri ég dálítið brosandi en núna er ég með skeifu,“ segir Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir blóðmeinafræðideildar, í samtali við fréttastofu.

„Staðan lítur illa út því í staðin fyrir að starfa í 4,6 stöðugildum þá munum við núna starfa í 3,9 stöðugildum á tveimur deildu, annarsvegar rannsóknardeildinni, blóðmeinafræðinni, og hinsvegar blóðlækningadeildinni,“ segir hann. 

„Á blóðlækningadeildinni liggur veikasta fólk Landspítalans,“ segir hann. „Fólk sem er illa mergbilað og framleiðir ekki blóð af ýmsum blóðsjúkdómum eða út af krabbameinsmeðferð. Þegar að það fækkar læknum sem að sinna því þá lætur eitthvað undan. Menn bara gefast upp og brenna út.“ 

Sjúklingar á blóðlækningadeildinni eru með veikustu sjúklingum spítalans.Vísir/Getty Images
Stöðugildum hefur fækkað

Páll Torfi bendir á að fækkun hafi orðið á stöðugildum sérfræðinga á þessu sviði undanfarin ár. Hann segir að fyrir nokkrum árum hafi verið níu sérfræðingar á sviðinu og stöðugildin sex og hálft en verða nú tæplega fjögur. 

„Það kæmi mér ekki á óvart. Ég hef heyrt að einni annarri yfirvofandi uppsögn en ég veit svosem ekki um fleiri,“ segir hann. „Það er ekki í augsýn að við séum að fá nýja sérfræðinga til landsins,“ segir hann og bætir við að lausn sé ekki í augsýn. 

„Þeir vaxa ekki á trjánum og það er engin erlendis sem er búinn að ljúka þessu sérnámi og hafa huga á því að koma heim,“ segir hann og bætir við að þeir sem enn séu í námi hafi gefið til kynna að þeir séu ekki á leiðinni heim. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×