Viðskipti innlent

Blikur á lofti í Kína

Stjórnarmaðurinn skrifar
Forvitnilegt hefur verið að fylgjast með skjálfta á fjármálamörkuðum í Kína. Á mánudag féll hlutabréfavísitalan í Shanghai um 8 prósent sem og flestar aðrar kínverskar vísitölur, í annað skipti á einum mánuði. Síðast féll virði bréfanna 3 trilljónir bandaríkjadala (já, þrjár trilljónir) á einum degi.

Margirhafa spáð því að efnahagshamfarir væru tryggar í Kína. Einkennin eru mörgum sem fylgdust með viðskiptum á árunum fyrir 2008 kunnugleg: gríðarleg skuldsetning fólks og fyrirtækja, ótrúlegar hækkanir á fasteignamarkaði, mikið lánsfé til fjárfestinga á lausu o.s.frv. Hagvöxtur hefur verið um og yfir 10% árum saman.

Aðrir hafa komið kínversku efnahagslífi til varnar. Segja æ fleiri hafi unnið sig úr fátækt til bjargálna millistéttar, hagvöxturinn sé sjálfbær og haldi áfram. Það sé nú af einum og hálfum milljarði að taka. Lunginn af því fólki berjist enn fyrir bættum lífskjörum.

Kína hefur árum saman verið framleiðsluland og séð Evrópu og Bandaríkjunum fyrir varningi á áður óþekktu verði. Það er ekki lengur svo að „made in China“ teljist skammaryrði, heldur hefur orðið til gríðarleg framleiðsluþekking í landinu. Vestræn fyrirtæki hafa því verið reiðubúin að sjá í gegnum fingur sér með mannréttindabrot, til að fá gæðavöru á góðu verði.

Slíkt á auðvitað ekki að líðast og nauðsynlegt að neytendur taki afstöðu gegn fyrirtækjum sem verða uppvís að slíku. Kínverjar sjálfir vita þetta og hafa gert átak í réttindamálum verkamanna. En betur má ef duga skal.

Það er öfugsnúið, en átakið veldur því að blikur eru á lofti í kínversku efnahagslífi. Meðallaun og aðstæður verkamanna hafa batnað, svo framleiðsluverð hækkar. Kínverskar verksmiðjur taka greiðslu í bandaríkjadölum. Sterk staða dalsins veldur svo frekari verðhækkunum gagnvart þeim sem gera upp í öðrum gjaldmiðlum.

Það hefur dregið saman með framleiðsluverði í Kína og annars staðar. Með því að framleiða nær heimahögum geta fyrirtæki sparað flutningskostnað og stytt afhendingartíma með tilheyrandi hagræði fyrir fjárstreymið. Framleiðslufyrirtæki snúa því í auknum mæli baki við Kína.

Enn að hlutabréfamarkaðnum. Stjórnvöld hafa gripið til ýmissa ráðstafana, m.a. bannað sölu á tilteknum bréfum og bannað tilteknum aðilum að selja. Viðbrögð sem ekki myndu líðast í þroskuðu lýðræðisríki. Þú breytir ekki reglunum í miðjum leik.

Vonandi bera stjórnvöld gæfu til að stíga varlega til jarðar og halda sig að mestu til hlés. Fjárfestar vilja ekki taka þátt á markaði þar sem stjórnvöld hafa alltaf úrslitaáhrif.

Stjórnarmaðurinn er sigldur innherji með puttann á púlsinum. Stjórnarmaðurinn skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudögum og liggur ekki á skoðunum sínum um menn og viðskiptaleg málefni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×