Fótbolti

Blikar settu fimm og bættu stöðu sína

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Berglind Björg hefur skorað í báðum leikjunum í Meistaradeildinni.
Berglind Björg hefur skorað í báðum leikjunum í Meistaradeildinni. vísir/hanna
Íslands- og bikarmeistarar Breiðabliks eru komnir með fjögur stig í sínum riðli í forkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir 5-0 sigur á NSA Sofiu frá Búlgaríu í dag.

Blikar fengu á sig jöfnunarmark í uppbótartíma gegn Spartak Subotica í fyrradag en það var engin hætta á að slíkt endurtæki sig í dag.

Það tók Blikastúlkur reyndar 34 mínútur að brjóta ísinn gegn Búlgörunum en eftir fyrsta markið komu tvö til viðbótar með skömmu millibili.

Svava Rós Guðmundsdóttir kom Breiðabliki yfir á 34. mínútu eftir sendingu frá Fanndísi Friðriksdóttur.

Á 40. mínútu bætti Berglind Björg Þorvaldsdóttir öðru marki við og Fanndís skoraði þriðja markið þremur mínútum síðar eftir sendingu frá Hildi Antonsdóttur.

Staðan var 3-0 í hálfleik og allt fram á 76. mínútu þegar Esther Rós Arnarsdóttir skoraði fjórða mark Blika, tólf mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Það var svo annar varamaður, Selma Sól Magnúsdóttir, sem gerði fimmta markið í uppbótartíma. Lokatölur 5-0, Breiðabliki í vil.

Spartak Subotica og Cardiff Met. mætast í seinni leik dagsins í riðlinum. Eftir hann liggur ljóst fyrir hvað Blikar þurfa til að komast í 32-liða úrslit. Breiðablik mætir Cardiff Met. í lokaleik sínum á sunnudaginn.


Tengdar fréttir

Hópurinn á að ráða við þetta

Breiðabliki tókst ekki að vinna serbneska liðið Spartak Subotica í Meistaradeild Evrópu í fyrradag þrátt fyrir mikla yfirburði. Blikar þurfa að svara fyrir sig með sigri, og það helst stórum, gegn NSA Sofia í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×