Körfubolti

Blatt: Þurfum meira af ást í Cleveland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Love og Lebron James.
Kevin Love og Lebron James. Vísir/AP
David Blatt, þjálfari Cleveland Cavaliers, hefur ekki eins miklar áhyggjur af sóknarleik liðsins og framherjinn Kevin Love sem var frekar pirraður eftir tapið á móti San Antonio Spurs í vikunni.

„Við spilum sérstök kerfi fyrir Kevin og fyrir hina leikmennina líka," sagði David Blatt eftir æfingu.

„Við áttum auðveldara með að skora fyrr á tímabilinu en það var samt samskonar sóknarleikur í gangi. Ég er því ekki viss um að þetta sé eitthvað tengt því að Love fái boltann ekki nógu mikið," sagði David Blatt.

Kevin Love hefur ekki skorað meira en 13 stig í þremur af síðustu fjórum leikjum Cleveland-liðsins. Hann hefur ekki skorað minna en þessi 10 stig sem hann skilaði í tapinu á móti San Antonio Spurs

„Við viljum allir hjálpa Kev. Hann þarf að komast meira inn í leik liðsins og hann þarf líka að koma sér sjálfum meira inn í sóknarleikinn. Það er okkar starf að hjálpa honum að gera það," sagði Blatt.

Kevin Love tók bara eitt skot í lokaleikhlutanum á móti San Antonio Spurs en hann hefur aðeins tekið 33 af 131 skoti sínu á tímabilinu nálægt körfunni. Á sama tíma hefur hinn 208 sentímetra hái Love tekið 54 þriggja stiga skot.

Love skoraði 26,1 stig að meðaltali með Minnesota Timberwolves í fyrra en er með 16,7 stig að meðaltali í leik á fyrsta tímabili sínu með Cleveland. Hann er því að skora næstum því tíu stigum minna að meðaltali í leik.

„Ég tel að ef allt liðið nær fleiri skotum á körfuna þá fái hann fleiri skot," sagði Blatt sem vill auka hraðann í leik liðsins og fækka töpuðu boltunum.

Love er ekki bara að taka færri skot í leik (13,1 á móti 18,5) því hann er líka að hitta mun verr. Love var með 45,7 prósent skotnýtingu í fyrra en skotnýtingin er "aðeins" 38,9 prósent í vetur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×