Innlent

Blár apríl hefst á morgun

Samúel Karl Ólason skrifar
Blár apríl, vitundarvakning um einhverfu, hefst formlega á morgun. Fyrirtæki og stofnanir um allan heim munu taka þátt með því að baða byggingar sínar í bláu ljósi. Styrktarfélag barna með einhverfu stendur fyrir Bláum apríl hér á landi og hefst styrktarsöfnun félagsins á morgun.

Að þessu sinni verður safnað fyrir námskeiðum fyrir foreldra barna með einhverfu sem og félagsfærninámskeiðum fyrir börn með einhverfu. Námskeiðin verða haldin í samvinnu við Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins. Nánari upplýsingar um söfnunina má finna á Facebooksíðu félagsins.

Samkvæmt tilkynningu geta áhugasamir styrkt Styrktarfélag barna með einhverju um þúsund krónur með því að hringja í 902-1010.

Hús og stofnanir sem taka þátt í átakinu á morgun með því að lýsa upp með bláum lit eru Harpa, Bessastaðir, Höfði, Ráðhúsið, Landsspítalinn, Smáralind, Fríkirkjan í HF, Nesjavallavirkjun, Orkuveitan, Orka náttúrunnar, Securitas, Vegagerðin og Kópavogskirkja.

Blár apríl mun ná hámarki föstudaginn 10. apríl, en þá munu börn í leikskólum og nemendur í grunn- og framhaldsskólum taka þátt í vitundarvakningunni með því að klæðast bláu og sýna afrakstur þemadaga um einhverfu.

Stjórnendur Smáralindar munu hvetja verslunar- og veitingastaðaeigendur til að taka þátt í deginum með bláu þema. Þá verður Hreyfing með styrktar-spinningtíma þar sem fyrirtækjum og einstaklingum gefst kostur á því að kaupa hjól til styrktar söfnuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×