Innlent

Blængur í fyrsta skipti á Neskaupstað

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Guðlaugur Birgisson tók þessa mynd af Blængi þar sem hann siglir inn Norðfjörð í fyrsta sinn.
Guðlaugur Birgisson tók þessa mynd af Blængi þar sem hann siglir inn Norðfjörð í fyrsta sinn. Mynd/Guðlaugur Birgisson
Í gær kom frystitogarinn Blængur NK (áður Freri RE) í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað.

„Síldarvinnslan festi kaup á skipinu fyrr í sumar og hélt það til veiða frá Reykjavík hinn 10. júlí. Veitt var á Halanum og var aflinn í þessari fyrstu veiðiferð rúmlega 300 tonn upp úr sjó, en meginhluti aflans var ufsi. Skipstjóri í veiðiferðinni var Sigtryggur Gíslason en hann er skipstjóri á Kaldbak, sem er systurskip Blængs. Bjarni Ólafur Hjálmarsson var fyrsti stýrimaður í veiðiferðinni en hann tekur nú við sem skipstjóri á Blængi,“ segir í tilkynningu frá Síldarvinnslunni.

„Þessi fyrsta veiðiferð veitti okkur dýrmæta reynslu en ljóst er að ýmislegt þarf að lagfæra um borð í skipinu og þá einkum á vinnsludekkinu. Það liggur skýrt fyrir að það er hægt að fiska mikið á þetta skip og þá skiptir máli að vinnslan um borð gangi vel,“ sagði Bjarni Ólafur Hjálmarsson, fyrsti stýrimaður í ferðinni.

„Blængur tekur drjúgt pláss í höfninni, enda skipið 79 metra langt. Skipið var lengt og vélbúnaður þess endurnýjaður árið 2000 auk þess frystilestin var endurnýjuð. Blængur er 1723 tonn að stærð og eru 26 menn í áhöfn skipsins,“ segir í tilkynningu.

Ráðgert er að Blængur haldi til veiða á ný næstkomandi fimmtudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×