Erlent

Blaðamenn senda skilaboð til Trump: „Við erum ekki óvinurinn“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Carl Bernstein var heiðursgestur.
Carl Bernstein var heiðursgestur. Vísir/Getty
Rjómi blaða- og fjölmiðlamanna var samankominn á árlegum hátíðarkvöldverði þeirra í Washington í gær. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna lét ekki sjá sig en blaðamenn sendu honum skýr skilaboð. Guardian greinir frá.

Trump hefur verið duglegur að skjóta á og gagnrýna umfjöllun fjölmiðla um embættisfærslur hans sem forseta. Skipulagði hann meðal annars fund með stuðningsmönnum á sama tíma og kvöldverðurinn fór fram. Þar skaut hann föstum skotum að blaðamönnum.

Áralöng hefð er fyrir því að sitjandi forseti Bandaríkjanna mæti í kvöldverðinn en Trump þáði ekki boðið, fyrstur forseta síðan Ronald Reagan árið 1981 sem var þá að jafna sig eftir banatilræði.

Jeff Mason, blaðamaður á Reuters og forseti samtaka blaðamanna í Hvíta húsinu, sem skipulegur kvöldverðinn sendi Trump skýr skilaboð í hátíðarræðu sinni. Varði hann frelsi fjölmiðla og sagði að tilraunir til þess að grafa undan fjölmiðlum væru hættulegar lýðræðinu.

„Við erum ekki falskar fréttir, við erum ekki haltrandi fjölmiðlafyrirtæki og við erum ekki óvinurinn,“ sagði Mason.

Vegna fjarveru Trump var fundurinn með breyttu sniði miðað við síðustu ár. Venju samkvæmt var þó grínisti fenginn til þess að halda uppi stuðinu og féll það hlutverk í skaut Hashan Minhaj frá The Daily Show á sjónvarpsstöðinni Comedy Central. Gerði hann óspart grín að fjölmiðlum og Trump sjálfum.

Vegna fjarveru Trump var enginn ræða Bandaríkjaforseta á dagskrá, líkt og tíðkast venjulega. Þess í stað var kvöldið helgað blaðamönnunum Bob Woodward og Carl Bernstein sem eru helst þekktir fyrir fréttaflutning sinn um Watergate-málið sem á endanum varð til þess að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×