Fótbolti

Blaðamaður The Sun við Vísi: Hodgson verður rekinn ef England tapar fyrir Íslandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mark Arnórs Ingva Traustasonar fyrir Ísland gegn Austurríki í lokaleik strákanna okkar í riðlakeppni EM skipti íslensku þjóðina miklu máli því loksins mætir Ísland liði Englands í mótsleik og það á EM. Englendingar litu á þetta öðruvísi. Þeir voru guðs lifandi fegnir að fá Ísland í staðinn fyrir Portúgal að sögn Justin Allen, blaðamanns The Sun.

„Auðvitað. Ég vil ekki að þetta hljómi eins og við séum eitthvað kokhraust en við státum bara af svo skelfilegum árangri gegn Portúgal. Við höfum ekki unnið þá í mótsleik síðan 1966. Við vorum ansi hræddir við þá og sérstaklega Ronaldo. Þegar Ísland skoraði gegn Austurríki vorum við svolítið fegnir því við eigum betri möguleika á að vinna Ísland. Þetta verður samt erfiður leikur,“ segir Justin Allen.

Enska liðið er ungt og ferskt en reynslan er ekki mikil. Englendingar horfa til þess að komast í undanúrslitin með þetta unga lið en sama hvað gerist verður það að vinna Ísland.

„Það eru kynslóðaskipti í liðinu. Leikmenn eins og Steven Gerrard og Frank Lampard eru hættir en í staðinn eru komnir ungir strákar eins og Harry Kane, Raheem Sterling og Dele Alli. Ef við erum raunsæ þá verða allir ánægðir með að komast í undanúrslitin. Átta liða úrslit væri á pari en að tapa gegn Íslandi væri stórslys,“ segir Allen.

Pressan á enska liðinu er ekki alveg jafnmikil og áður vegna þessara kynslóðaskipta sem Allen talar um en það er svo sannarlega ekki í boði að tapa fyrir Íslandi. Yrði tapleikur gegn íslenska liðinu síðasti leikur Roy Hodgson við stjórnvölinn hjá Englandi?

„Já. Það er stutta svarið. Ekki gleyma því að England var á botni riðilsins á HM. Að tapa fyrir Íslandi, með fullri virðingu, er ekki í boði því þetta er land á stærð við Leicester. Ef það gerist verður þess krafist að Hodgson fari og nýr maður komi inn,“ segir Allen.

Hér að ofanmá sjá allt viðtalið við Justin Allen.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

EM í dag: Groundhog day í Annecy

Tómas Þór Þórðarson og Eiríkur Stefán Ásgeirsson fara yfir allt sem snýr að íslenska liðinu á EM í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×