Lífið

Bjuggust aldrei við að upptökur á myndinni tækju heil 15 ár

Guðný Hrönn skrifar
Kvikmyndagerðarmaðurinn Jón Karl Helgason ásamt hjónunum Phetchada og Praneet og dætrum þeirra, Navindu og Navapon, á frumsýningu 15 ár á Íslandi á þriðjudaginn. Á myndina vantar son þeirra, Nattapat.
Kvikmyndagerðarmaðurinn Jón Karl Helgason ásamt hjónunum Phetchada og Praneet og dætrum þeirra, Navindu og Navapon, á frumsýningu 15 ár á Íslandi á þriðjudaginn. Á myndina vantar son þeirra, Nattapat. Vísir/Anton Brink
Heimildarmyndin 15 ár á Íslandi var frumsýnd í vikunni. Hún fjallar um taílenska fjölskyldu sem sest að á Íslandi og áhorfendur fá að fylgjast með heilum 15 árum í lífi fjölskyldumeðlima.

„Þetta byrjaði um aldamótin síðustu þegar ég fór að leita eftir að fá leyfi hjá einhverri fjölskyldu sem var að flytja til landsins,“ segir Jón Karl Helgason um heimildarmynd sína 15 ár á Íslandi sem gefur áhorfendum innsýn í líf og tilveru fimm manna taílenskrar fjölskyldu sem er að koma sér fyrir á Íslandi. „Það tók mig tvö ár að finna fjölskyldu. Þegar hún var fundin byrjaði ég að mynda þau um sumarið 2003, þá voru þau að setjast að og leiga íbúð í verksmiðjuhverfi í Kópavogi.“

Jón Karl hefur unnið að myndinni í heil 15 ár en upphaflega var ekki ætlunin að taka svo langan tíma í verkefnið. En að sögn Jóns Karls var fjölskyldan sem myndin fjallar um liðleg og sýndi því skilning þegar verkefnið dróst á langinn. „Snemma myndaðist traust á milli okkar og ég fékk að mynda þau reglulega á þessu 15 ára tímabili. Þau leyfðu mér að vera inni á heimili sínu þegar ég vildi og til dæmis heimsótti ég þau um þrenn jól. Það var árin 2004, 2006 og 2011.“

Jón Karl segir fjölskylduna sem myndin fjallar um hafa komið hingað til lands vel menntaða en samt sem áður tók sinn tíma að aðlagast. „Pabbinn, Praneet Khongchum­chuen, er menntaður vélvirki en fékk reyndar ekki vinnu sem vélvirki fyrr en sjö árum eftir að hann kom til landsins. Mamman, Phetchada Khongchumchuen, er menntuð sem kennari og fékk vinnu hjá nýbúadeild Hjallaskóla í Kópavogi en á sama tíma er hún að vinna í sælgætisgerðinni Góu ásamt því að keyra tvisvar í viku til Sandgerðis til að kenna taílensku.“

Var kominn með efni í mynd eftir átta ár

Jón Karl er sáttur við útkomuna. „Já, ég er það. Mér fannst ég meira að segja vera kominn með efni í mynd þegar ég var búinn að mynda í átta ár. En þá sótti ég um styrk til Kvikmyndamiðstöðvar og fékk hann, þá bættust við fleiri ár.

 

Jón Karl vonast til að veita landsmönnum innsýn inn í heim innflytjenda með myndinni 15 ár á Íslandi.Vísir/GVA
 

Fjölskyldan bjóst aldrei við að ég yrði 15 ár að þessu verkefni. Þau hafa örugglega bara gert ráð fyrir því að ég myndi fylgjast með þeim í nokkra daga eða vikur, eitthvað svoleiðis. En svo dregst þetta og þau taka þátt allan tímann. Auðvitað voru þau farin að spyrja hvort ég ætlaði nú ekki að fara að klára þessa mynd,“ segir Jón Karl og hlær.

Þess má geta að fjölmiðlar og íslenskar fréttir leika stórt hlutverk í mynd Jóns Karls en samhliða upptökum safnaði hann fréttum um málefni innflytjenda á Íslandi. „Og ég birti þessar fréttir í myndinni í takt við það sem er að gerast hjá fjölskyldunni hverju sinni. Þannig kemur sjónarhorn Íslendinganna inn í myndina. Sem dæmi, þegar mamman fer með vinkonum sínum á Sólvang til að sýna heimilisfólkinu taílenskan dans þá kemur frétt á sama tíma í kvöldfréttum RÚV um að 36% Íslendinga vilja ekki að innflytjendur fái að viðhalda sínum siðum og venjum.“

Með myndinni vonast Jón Karl til að gefa fólki innsýn í heim innflytjenda á Íslandi. „Í myndinni fá áhorfendur að sjá og kynnast þessari fjölskyldu og heim Taílendinga og innflytjenda á Íslandi. Það er ekkert sjálfgefið að aðlagast nýju landi og líða vel, það bærast heilmiklar tilfinningar þarna. Það er synd að við Íslendingar séum ekki nógu duglegir að aðstoða innflytjendur að læra íslensku og aðlagast. Við viljum ekki að þetta fólk einangrist. Við viljum að þau séu uppi á yfirborðinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×