Lífið

Bjuggu til myndasögu um plöntuna á ganginum

Sýningin á síðum bókarinnar á Borgarbókasafninu er opin fram í janúar.
Sýningin á síðum bókarinnar á Borgarbókasafninu er opin fram í janúar. Vísir/GVA
Systurnar Elísabet Rún og Elín Edda Þorsteinsdætur gáfu á dögunum út bókina Plantan á ganginum, en hún er samvinnuverkefni þeirra systra.

„Þetta byrjaði sumarið 2012 en við vorum hvorugar komar með vinnu. Okkur langaði að gera eitthvert skemmtilegt verkefni saman og enduðum á því að gefa út vefmyndasögu á Tumblr-vefnum,“ segir Elísabet, en í fyrstu birtu þær um þrjá ramma úr sögunni á dag. „Svo sáum við bara að teikningarnar okkar myndu koma mun betur út á prenti, þannig að við ákváðum að gera bók,“ bætir hún við.

Sagan fjallar um Geirþrúði Flóru, konu sem býr í miðbæ Reykjavíkur og hefur helgað líf sitt plöntum og blómum. „Það má eiginlega segja að hún sé búin að einangra sig svolítið og kjósi heldur að umgangast plöntur en fólk,“ segir Elísabet. Dag einn ákveður Geirþrúður að setja eina af plöntunum sínum fram á gang, en við það fer af stað atburðarás sem mun vægast sagt hafa áhrif á líf hennar. „Það er eiginlega ekki hægt að segja meira, en hún fjallar um vináttuna og það að vera öðruvísi,“ segir Elín.

Síður úr bókinni eru til sýnist í myndasögudeild Borgarbókasafnsins og stendur sýningin yfir fram í janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×