Menning

Bjóst ekki við þvílíku tækifæri í þessu jarðlífi

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég er búinn að fá mér þrjár tegundir af sjóveikipillum, gallinn er sá að maður má ekki vera of sljór við spilamennskuna,“ segir Einar grallaralegur.
"Ég er búinn að fá mér þrjár tegundir af sjóveikipillum, gallinn er sá að maður má ekki vera of sljór við spilamennskuna,“ segir Einar grallaralegur. Fréttablaðið/Valli
„Vegna listarinnar get ég ekki skorast undan. Ég á að vera að æfa mig en er bara í tölvunni,“ segir Einar Jóhannesson klarinettuleikari hlæjandi, beðinn um smá viðtal um ævintýrin sem hann á fyrir höndum. Fyrst tónleika í Norðurljósasal Hörpu á morgun, miðvikudag, klukkan 18.30, með miðaldasönghópnum Voces Thules sem hann er félagi í.

„Við höfum sungið í Hörpu áður en ekki haldið okkar eigin tónleika þar fyrr. Kveikjan að þeim er sú að hópur áhugafólks um forna tónlist og nýja kemur til landsins á morgun með skemmtiferðaskipinu Black Watch og heldur svo för sinni áfram réttsælis kringum landið á fimmtudaginn.

Ég var beðinn að spila á klarinett um borð með þekktum breskum tónlistarmönnum og skipuleggjendurnir spurðu hvort ég gæti sett upp einhverja tónleika fyrir klúbbinn í Hörpu.  Voces Thules er með mjög þjóðlega tónlist og það verður skemmtilegt að kynna hana,“ segir Einar og tekur fram að tónleikarnir séu opnir öllum.

En hefur hann siglt áður á skemmtiferðaskipi? „Nei, þetta er í fyrsta sinn og ég bjóst ekki við þvílíku tækifæri í þessu jarðlífi.

Ég er pínulítið nervus út af sjóveikinni, það er ekki gott að spila á blásturshljóðfæri og vera bumbult en ég er búinn að fá mér þrjár tegundir af sjóveikipillum, gallinn er sá að maður má ekki vera of sljór við spilamennskuna! En þetta er nú risastórt skip og ég held að þau láti ekki illa.“



Fram undan er vikusigling sem endar í Newcastle, með viðkomu á Akureyri, Eskifirði og Runevik í Færeyjum og lónað verður utan við Hornbjarg.

Einar kveðst hafa dregið Ingibjörgu Guðjónsdóttur sópransöngkonu með í ferðalagið til að flytja Draumalandið og fleiri íslenskar söngperlur, meðan siglt er meðfram ströndum Íslands.

„Við verðum með tónleika strax tveimur tímum eftir að við komum um borð.

Einnig verða tónleikar í Hofi á Akureyri á laugardaginn klukkan 18 og þar er ókeypis aðgangur.

Á Eskifirði fer Ingibjörg í land. „Ég vona að einhver komi að sækja hana svo hún þurfi ekki að fara á puttanum heim,“ segir Einar sem síðan heldur áfram siglingunni til Newcastle.

„Það eru frábærir músíkantar um borð og verður gaman að fá að spila með þeim.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×