Innlent

Björt framtíð færði sig yfir á nefndarsviðið þar sem Viðreisn fundar

Birgir Olgeirsson skrifar
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, mæta til fundar í Alþingishúsinu í kvöld.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, mæta til fundar í Alþingishúsinu í kvöld. Vísir/Stefán
Það hafa verið stíf fundahöld í þinghúsinu í kvöld þar sem flokkarnir fimm, Píratar, Vinstri græn, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylkingin hafa rætt sín á milli hvort flokkarnir eigi að halda áfram viðræðum um mögulega stjórnarmyndun.

Formenn flokkanna byrjuðu á að hittast á nefndarsviði Alþingishússins um hálf átta leytið í kvöld en upp úr klukkan níu hittust hver og einn þingflokkur inn í sínum þingflokksherbergjum til að ræða málin, að undanskildum flokki Viðreisnar sem fundaði á nefndarsviðinu.

Um klukkan hálf ellefu í kvöld gengu allir þingmenn Bjartrar framtíðar út úr þingflokksherbergi sínu. Þegar fréttamaður Stöðvar 2 á staðnum spurði hvert förinni var heitið fengust þau svör að þingmenn Bjartrar framtíðar ætluðu að færa sig yfir á nefndarsvið Alþingis. Þar var einmitt þingflokkur Viðreisnar að funda en ekki fengust svör um það hvort Björt framtíð ætlaði að funda með þeim.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði við fréttastofu að þingflokkur Samfylkingarinnar væri kominn að niðurstöðu, vilji væri fyrir því að halda viðræðum áfram.

Búast má hins vegar við því að þingflokkur Vinstri grænna fundi eitthvað fram eftir kvöldi.


Tengdar fréttir

Ennþá ágreiningur um stór mál

Ríkisstjórnarsamstarf flokkanna fimm, sem hafa verið í óformlegum viðræðum, ræðst í kvöld eða snemma í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×