Fótbolti

Björn Daníel opnaði markareikninginn fyrir AGF í stórsigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björn Daníel skoraði sjö mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður.
Björn Daníel skoraði sjö mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður. vísir/getty
Björn Daníel Sverrisson skoraði sitt fyrsta mark fyrir AGF þegar liðið vann stórsigur á Esbjerg, 6-2, í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Björn Daníel byrjaði á bekknum en kom inn á sem varamaður á 62. mínútu. Sjö mínútum síðar skoraði hann og kom AGF í 4-2. Þetta var hans fyrsta mark fyrir Árósaliðið síðan hann kom til þess frá Viking í Noregi í sumar.

Þótt sigur AGF hafi verið öruggur á endanum lenti liðið tvisvar undir í fyrri hálfleik. Guðlaugur Victor Pálsson bar fyrirliðabandið og lék allan leikinn fyrir Esbjerg sem var 1-2 yfir í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var hins vegar eign heimamanna sem skoruðu fimm mörk og tryggðu sér öruggan sigur. Theodór Elmar Bjarnason var í byrjunarliði AGF en var tekinn af velli þremur mínútum fyrir leikslok.

Þetta var fyrsti sigur AGF í sjö deildarleikjum og aðeins annar sigur liðsins í síðustu 13 leikjum.

AGF er í 10. sæti deildarinnar með 16 stig en Esbjerg er á botninum með aðeins átta stig.

Haukur Heiðar Hauksson lék allan leikinn fyrir AIK sem gerði markalaust jafntefli við Jonköpings í sænsku úrvalsdeildinni. Við þessi úrslit fór AIK upp fyrir Norrköping í 2. sæti deildarinnar.

Í 4. sætinu er IFK Göteborg sem gerði 2-2 jafntefli við Elfsborg á heimavelli. Elías Már Ómarsson lék allan leikinn fyrir Göteborg en Hjálmar Jónsson kom inn á sem varamaður á 28. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×