Handbolti

Björgvin Páll meðal markaskorara í tapi | Kiel aftur upp í annað sætið

Björgvin Páll Gústavsson var meðal markaskorara í 27-22 tapi Bergischer gegn Minden á útivelli í þýska handboltanum í dag en Björgvin Páll og félagar misstu því af gullnu tækifæri til að sækja á næstu lið fyrir ofan fallsætin.

Minden náði strax forskotinu á fyrstu mínútunum og leiddi með fimm mörkum í hálfleik 15-10 en Bergischer náði aldrei að ógna því forskoti af krafti. Þegar mest var fór forskotið upp í sjö mörk skömmu fyrir leikslok en gestirnir náðu aðeins að klóra í bakkan undir lok leiks.

Björgvin Páll náði líkt og fram kom áðan að komast á blað í leiknum með eitt mark en Charlie Sjöstrand var atkvæðamestur á vellinum með átta mörk fyrir Minden.

Fyrr í dag vann Kiel nauman 27-26 sigur á Hannover-Burgdorf á útivelli en með sigrinum kemst Kiel aftur upp fyrir Rhein-Neckar Löwen í annað sæti deildarinnar þótt Löwen eigi leiki til góða.

Jafnræði var með liðunum framan af og leiddi Kiel með einu marki þegar seinni hálfleikur hófs en þá settu lærisveinar Alfreðs Gíslasonar allt í botn og náðu sex marka forskoti með góðum kafla.

Þá virtist kæruleysi koma upp hjá leikmönnum Kiel þar sem þeir slökuðu á klónni og hleyptu heimamönnum inn í leikinn á nýjan leik en Kiel slapp þó með skrekkinn og vann eins marka sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×