Enski boltinn

Björgvin Páll ekki sá eini sem varði þrjú víti á HM í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adam Malcher gat ekki fagnað sigri í gær.
Adam Malcher gat ekki fagnað sigri í gær. vísir/afp
Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska handboltalandsliðsins, varði öll þrjú víti spænska landsliðsins í fyrri hálfleik á leik þjóðanna á heimsmeistaramótinu í Frakklandi í gær.

Björgvin Páll varð að sætta sig við að fá á sig eitt mark úr víti í seinni hálfleiknum en endaði með 75 prósent markvörslu í vítum í leiknum; þrjú víti varin af fjórum.

Björgvin Páll varði víti frá Spánverjunum Valero Rivera, Alex Dujshebaev og Daniel Sarmiento. Valero Rivera var sá eini sem náði að skora hjá honum.

Björgvin var þó ekki sá eini markvörðurinn sem varði þrjú víti á HM í gær því það gerði einnig pólski markvörðurinn Adam Malcher.

Adam Malcher, sem er þrítugur markvörður pólska liðsins KPR Gwardia Opole, var í miklu stuði í leik Pólverja á móti Norðmönnum í Nantes.

Malcher varði víti frá þeim Kristian Björnsen, Sander Sagosen og Kent Robin Tönnesen. Hann tók alls 3 af 7 vítum Norðmanna í leiknum, 43 prósent vítanna, og var því með mun lægri vítahlutfallsmarkvörslu en okkar maður.

Þeir Björgvin Páll og Adam hafa varið sex af þeim tólf vítum sem markverðir hafa tekið á heimsmeistaramótinu til þessa. Rússinn Vadim Bogdanov varði tvö víti en engum öðrum markverði tókst að verja meira en eitt víti.

Pólverjar eru með tvo nýja markverði á mótinu en þeir Slawomir Szmal og Piotr Wyszomirski, sem hafa markverðir liðsins á síðustu stórmótum eru hvorugir með að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×