Handbolti

Björgvin Páll: Erum lið sem lifir á tilfinningum og geðveiki

Arnar Björnsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson var frábær í fyrri hálfleik í kvöld og var þá með rúmlega 50 prósenta markvörslu og varði þá meðal annars þrjú vítaköst.

„Já, frammistaðan var góð en dugði því miður ekki. Þetta var góður fyrri hálfleikur hjá okkur öllum. Við erum lið sem lifir á tilfinningum og svolítilli geðveiki og kannski varð hún okkur að falli líka. Við lentum í því í seinni hálfleik að detta allt of langt niður. Á móti eins sterku og reyndu liði er þá gerði það okkur lífið erfitt. Við göngum stoltir af velli þó svo að við séum mjög ósáttir með að fá ekkert stig,“ sagði Björgvin auðmjúkur eftir leik.

Þú stútaðir þremur mismunandi vítaskyttum Spánverja í fyrri hálfleik. „Það er hluti af þessu að verja einhverja bolta og víti líka. Það er hluti af minni leikgreiningu líka en þeir telja líka alveg jafnmikið og auðveldu boltarnir gefa mér.“

Þetta var meira stöngin út í seinni hálfleik og menn að gera of mörg mistök?

„Vargas var að verja eins og brjálæðingur í seinni hálfleik og gerði okkur lífið erfitt. Við náðum ekki að halda dampi. Við erum að læra inn á okkur í þessum fyrsta leik. En það er mikilvægt að taka allt það jákvæða út úr þessu og þetta er fínt vegarnesti fyrir framhaldið.  Þó svo að það séu ekki neinir punktar í töskunni þá getum við gengið stoltir af velli og verðum klárir í næsta bardaga.“  

Þetta er enginn heimsendir?

„Nei, langt frá því við erum komnir til að gera eitthvað á þessu móti,“ sagði markvörðurinn geðþekki.

Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Janus Daði: Hættum að geta skorað

Janus Daði Smárason þreytti frumraun sína á stórmóti þegar Ísland tapaði 27-21 fyrir Spáni á HM í Frakklandi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×