Handbolti

Björgvin: Lazarov má skora 30 mörk svo lengi sem við vinnum

Arnar Björnsson skrifar
„Það er mikil tilhökkun fyrir leikinn í kvöld,“ segir Björgvin Páll Gústavsson markvörður sem er búinn að spila flestar mínúturnar í íslenska landsliðinu á HM.

Hann er búinn að verja 38 af þeim 111 skotum sem hann hefur fengið á sig í leikjunum fjórum, sem er 34 prósent markvarsla. Er hann ekki skíthræddur við mótherjana?

„Nei, ég er það ekki. Það er þannig eðli í okkar að við hræðumst enga. Við þurfum að halda rétt á spilunum því ef við spilum okkar leik þá eigum við góða möguleika. Við þurfum fyrst að hugsa um okkur sjálfa. Ef við erum með okkar geðveiki og eigum okkar besta leik að þá erum við ógeðslega erfiðir viðureignar.“

En það hafa nú komið kaflar þar sem þið hafið sýnt á ykkur aðrar hliðar.

„Já, en slæmu kaflarnir eru búnir. Við erum komnir upp brekkuna og vonandi erum við með öll vopnin klár. Það er búinn að vera stígandi í þessu hjá okkur. Stríddum Spánverjum og Slóvenum sem eru í hópi 5-8 bestu liðanna. Við mætum hraustir í þennan leik peppaðir eftir 14 marka sigur sem við erum kátir með. Við erum hvergi bangnir og mætum í þennan leik eins úrslitaleik.“

Þeir spila oft með sjö leikmenn í sókninni er ekki erfitt fyrir markmann að glíma við það?

„Þetta er auðvitað nýtt verkefni fyrir okkkur því þeir spila mikið 7 á móti 6. Þetta er verkefni fyrir hausinn á okkur. Mikill undirbúningur og því gott að fá einn frídag til að kíkja á þá. Þeir eru að breyta handboltanum með þessum sjöunda leikmanni og hversu mikið þeir nota hann. Það getur orðið til þess að maður þarf að skjóta yfir völlinn og ná löngum sendingum fram. Það eru því næg verkefni fyrir hausinn og því þurfum við að vera sérstaklega einbeittir fyrir þetta verkefni.“

Lazarov á eftir að skjóta nokkrum sinnum á þig. Hvað ætlaðu að verja mörg skot frá honum?

„Hann hatar ekki að skjóta og elskar það dálítið mikið. Auðvitað er þetta heimsklassaleikmaður en mér er nokkuð sama hversu marga bolta ég ver frá honum ef við vinnum leikinn.  Hann má skora 30 mörk ef við vinnum“.    

Línumaðurinn Stoilov er öflugur á línunni er erfitt að eiga við hann?

„Hann er örugglega 200 kíló og þetta verður verkefni. Lazarov, einn besti handboltamaður heims, getur fundið hann með hvorri höndinni sem er. Þetta eru þeir leikmenn sem þeir byggja mikið á og svo eru þeir með hornamann sem skorar líka. Þetta er öðruvísi sóknarleikur en fyrir vikið þurfum við að vera betur undirbúnir. Ég held að það séu fá lið sem eru eins vel undirbúin og við.“

Hverju ætlar þú að lofa landsmönnum?

„Skemmtun og ég ætla líka að lofa því að við munum gefa allt í þetta. Við erum hérna til að berjast og erum að leggja líf og sál í þetta. Það gleður mig að fá skilaboðin að heiman þegar fólk er að hvetja okkur áfram. En það er jafnpirrandi þegar einhverjir sérfræðingar eru kannski að leita að því neikvæða. Við erum hérna til að gera okkar besta og ætlum að fara út úr mótinu þannig að gefa allt í þetta hvort sem það endar á morgun eða eftir tvær vikur“.

Finnurðu fyrir viðbrögðunum heima?

„Já, við fylgjumst með öllu sem gerist og höfum gaman að umfjölluninni líka. Þetta er auðvitað gamli góði Íslendingurinn, þegar gengur vel erum við „strákarnir okkar“ en þegar við töpum erum við handboltalandsliðið. Vkð þurfum að taka þeirri gagnrýni. Við erum að gera þetta fyrir okkur sjálfa og jákvæðu einstaklingana og þá sem hafa gaman að horfa á okkur. Við erum ekki að gera þetta fyrir hina.“

Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×