Innlent

Björgunarmiðstöð á að mæta stórslysum

Svavar Hávarðsson skrifar
Skemmtiferðaskipum fjölgar sífellt við landið en geta til að aðstoða þau í neyð er takmörkuð.
Skemmtiferðaskipum fjölgar sífellt við landið en geta til að aðstoða þau í neyð er takmörkuð. fréttablaðið/gva
Undirbúningur að rekstri alþjóðlegrar björgunar- og viðbragðsmiðstöðvar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli er hafinn. Stýrihópur innanríkisráðherra vinnur að því að útfæra tillögur sem líta dagsins ljós á vetri komandi.

Auðunn F. Kristinsson, verkefnastjóri á aðgerðasviði Landhelgisgæslunnar, segir hópinn hafa samráð við innlendar og erlendar stofnanir sem eiga mikið undir því að leit og björgun, þjálfun og þekkingarmiðlun á norðurheimskautssvæðinu sé hnökralaus. Eins hefur samráðshópur innanríkisráðuneytis og utanríkisráðuneytis aðkomu að verkefninu, en hann hefur komið að því allt frá árinu 2013.

Auðunn f. Kristinsson
Auðunn segir að í gangi sé greining á því hvað nákvæmlega þarf til og umfangi miðstöðvarinnar. „Í okkar huga verður komið á fót miðstöð sem þjónustar systurstofnanir okkar og björgunaraðila sem vinna á norðurslóðum. Við sjáum fyrir okkur að á þessu svæði verði nokkrar svæðisbundnar björgunarmiðstöðvar, og það væri ekki óeðlilegt að miðstöðin hér myndi þjónusta Norður-Atlantshafið og svæðið við Austur-Grænland. Norðmenn þjónusti sitt svæði og ég sé fyrir mér að önnur miðstöð þjónustaði svæði frá Kananda. Rússar hafa verið að setja upp björgunarstöðvar og styrkja sitt kerfi,“ segir Auðunn og bætir við að umfang starfseminnar sé eitt af því sem stýrihópurinn mun móta tillögur að. Sama á við um þann búnað og mannskap sem þyrfti að vera tiltækur. Hvort kæmi til sértækrar uppbyggingar á öryggissvæðinu kemur síðar í ljós og mótast af umfanginu.

Spurður um verkefnin ef af yrði, segir Auðunn þau snúa að stórum atvikum sem bregðast þarf við. „Það er alveg á hreinu að verða stór atvik, skemmtiferðaskip eða stór olíuskip lenda í áföllum hér eða við Grænland, þá eru engir innviðir hér til að leysa slík mál og við munum alltaf þurfa aðstoð. Það er markmiðið að tryggja siglingar og björgunargetu á þessu víðfeðma svæði,“ segir Auðunn. Hann segir jafnframt að spár um stórauknar siglingar stórra olíuskipa við landið hafi ekki ræst, en þess í stað aukast komur farþegaskipa jafny og þétt.

Skráðar komur skemmtiferðaskipa í sumar eru 105, samkvæmt samantekt Faxaflóahafna og fyrir árið 2016 hafa þegar 86 skip boðað komu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×