Erlent

Björgunarmenn heyrðu í fólki í skipinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Björgunarmönnum tókst að bjarga fimm manns með því að skera gat á botn skipsins.
Björgunarmönnum tókst að bjarga fimm manns með því að skera gat á botn skipsins. Vísir/EPA
Björgunarmenn hafa bjargað minnst 14 af 458 farþegum skemmtiferðaskipsins Eastern Star sem hvolfdi á Yangtze ánni í Kína. Flestir farþeganna eru eldri borgarar samkvæmt ríkissjónvarpi Kína. Björgunarmenn heyrðu í fólki kalla eftir hjálp í gegnum skrokk skipsins.

47 áhafnarmeðlimir voru um borð og 406 ferðamenn. Mest tekur skipið 534 farþega.

Skipið hvolfdi í óveðri í gærkvöldi og björgunarmenn segja líkurnar á því að fólki verði bjargað á lífi fari minnkandi. Staðfest er að minnst fimm séu látnir. Á myndböndum frá vettvangi má sjá þar sem björgunarmenn banka á botn skipsins og hlusta eftir svörum frá eftirlifendum.

Ekkert neyðarkall barst frá skipinu en hjálparbeiðni barst frá fólki sem náði að synda í land samkvæmt BBC. Skipstjóri skipsins og vélstjóri komust í land og eru nú í haldi lögreglu. Þeir segja að skipið hafi hvolft í hvirfilbyli. Þeir sögðu að skipið hefði sokkið á einungis nokkrum mínútum á meðan flestir farþegar þess voru sofandi.

Yfirvöld í Kína hafa sent fjölmennt björgunarlið og hermenn á staðinn og von er á björgunarskipi, sem nota á til þess að reyna að rétta skipið af. Björgunarmönnum tókst að bjarga fimm manns með því að skera gat á botn skipsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×