Innlent

Björguðu lífi þriggja sjómanna við Ísafjarðardjúp: „Þetta var erfið stund“

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Sjómenn á strandveiðibátnum Mardísi frá Súðavík björguðu lífi þriggja sjómanna sem voru hætt komnir þegar fiskiskipið Jón Hákon gert út frá Bíldudal, sökk skyndilega út af Rit, nærri Aðalvík, við Ísafjarðardjúp, snemma í morgun. Einn maður fórst í slysinu.

Klukkan var rúmlega sjö þegar báturinn hvarf af skjá sjálfvirku tilkynningarskyldunnar. Skömmu síðar sendi stjórnstöð Landhelgisgæslunnar út tilmæli til skipa og báta á svæðinu um að svipast um eftir bátnum.

Jóhann Sigfússon  var um borð í Mardísi sem komst upp að bátnum.

„Þá sjáum við þá fljótlega, þeir standa og veifa á kilinum. Þá keyrum við eins og við getum að þessum stað. Við náðum að kippa þeim um borð, við mjög erfiðar aðstæður, þetta var erfið stund. Við keyrðum eins og leið lá til Bolungarvíkur og vildum að einhver tæki þá til að þeir
kæmust fljótlega  á sjúkrahús.“

Skipverjarnir komust svo til Bolungarvíkur um klukkan tíu.

Þeir voru fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði til skoðunar og aðhlynningar.  Þeir hlutu ekki meiðsl.  Skipverjarnir þrír hafa nú þegar gefið lögreglu skýrslu varðandi aðdraganda slyssins.

Tildrög þess eru enn til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.  Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur verið tilkynnt um atvikið.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×