Innlent

Björguðu lífi 98 af hundrað sjúklingum með alvarlega stunguáverka

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Læknum á Landspítalanum tókst að bjarga lífi 98 af eitt hundrað sjúklingum sem komu á spítalann á fimmtán ára tímabili með alvarlega stunguáverka. Þetta sýna frumniðurstöður nýrrar rannsóknar og hefur árangur íslenskra heilbrigðisstarfsmanna vakið athygli erlendis. Í einu af alvarlegustu tilfellunum þurfti að gefa sjúklingi 55 lítra af blóði.

Við vörum við myndum í myndbandi með fréttinni.

Undanfarið hafa þrjár rannsóknir verið í gangi á stunguáverkum á Landspítalanum. Í einni þeirra er verið að skoða alla alvarlega stunguáverka á Landspítalanum sem kröfðust innlagnar á sjúkrahús á árunum 2000 til 2014. Frumniðurstöður þeirrar rannsóknar þykja áhugaverðar. Í þeim má sjá að læknar á Landspítalanum tóku á fimmtán ára tímabili á móti eitt hundrað sjúklingum með stunguáverka. Það sem vekur athygli er að læknum tókst að bjarga lífi nær allra. Rétt er að taka fram að allar ljósmyndir sem sjást í fréttinni eru birtar með leyfi sjúklinganna.

„Það sem er ánægjulegast kannski í þessum frumniðurstöðum er að það eru einungis tveir sjúklingar af hundrað sem hafa látist. Okkur hefur sem sagt tekist að bjarga langflestum jafnvel þó um mjög alvarlega áverka sé að ræða. Þarna á meðal, af þeim sem við höfum bjargað, eru nokkrir með mjög alvarlega áverka þar á meðal tveir sem að hafa fengið svona gat á hjartað og við höfum opnað sem sagt niðri á bráðamóttöku. Okkur hefur tekist að bjarga þeim öllum,“ segir Tómas Guðbjartsson, hjarta- og æðaskurðlæknir og prófessor við HÍ.

Þessi árangur lækna á Landspítalanum er mjög athyglisverður og hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. „ Sem er mjög ánægjulegt fyrir allt teymið hér. Ekki þá bara læknana heldur líka hjúkrunarfræðingana og aðra,“ segir Tómas.

Tómas telur nokkra hluti geta skýrt þennan góða árangur starfsfólks á spítalanum. Í fyrsta lagi sé það neyðarbílinn er fljótur að koma fólki í hús. Númer tvö er góður aðgangur að blóði. „ Einn af þessum sjúklingum til dæmis sem við höfum skorið blæddi 55 lítra það var sem sagt búið að skipta tíu sinnum um allt blóð í honum. Blóðbankinn auðvitað tæmdist á nokkrum klukkutímum. Með facebook og svona kerfi, vinakerfi, þá var hægt að kalla inn fólk að kvöldi og um nóttina sem að gaf blóð,“ segir Tómas.

Í þriðja og síðasta lagi segir Tómas það skipta máli að til staðar á spítalanum séu keðjur sem virki vel til að mynda svæfingalæknum, bráðalæknum, hjúkrunarfræðingum og gjörgæsluteymi. „ Þetta er það sem að hefur núna ítrekað sem sagt smollið saman og með þessu móti er hægt bjarga fólki sem er í mjög mikilli lífshættu,“ segir Tómas Guðbjartsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×