Viðskipti innlent

Björgólfur Thor: „Mér leið svo illa yfir öllu saman“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Björgólfur Thor er aftur orðinn einn af ríkustu mönnum heims.
Björgólfur Thor er aftur orðinn einn af ríkustu mönnum heims. Vísir/Vilhelm
„Ég íhugaði að fara burt og setjast undir stein og bíða eftir að storminn lægði,“ segir auðmaðurinn Björgólfur Thor Björgólfsson í viðtali við bandaríska blaðið Forbes. „Mér leið svo illa yfir öllu saman.“



Blaðið birtir í dag ítarlega umfjöllun og viðtal við Björgólf í tilefni af því að hann er aftur kominn á lista blaðsins yfir ríkustu menn heims. Björgólfur situr í 1415. sæti listans með eignir upp á 173 milljarða króna.



Í upphafi umfjöllunarinnar segir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafi sent Björgólfi skilaboð og skipað honum að koma heim. „Komdu heim. Núna,“ voru skilaboðin sem hann átti að hafa fengið þann 3. október 2008. Forsetinn hefur þó neitað þessu áður.



Forbes segir einnig frá því að þegar Björgólfur var að gera upp eins milljarðs dala skuldir sínar við lánadrottna hafi hann tvívegis gleymt margra milljóna króna eignum. Fyrst var uppgjörinu stefnt í voða þegar í ljós kom að hann hafði ekki sagt frá Ferrari-bifreið sem hann átti og síðar út af íbúð í Pétursborg í Rússlandi.



Björgólfur segist ætla að haga viðskiptum sínum öðruvísi nú en fyrir hrun. „Ég er í alvöru að reyna að læra eitthvað af þessu,“ segir hann við Forbes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×