Lífið

Bjóða í eftirpartí í Hörpu

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Þau Ragnhildur og Egill ætla að halda uppi stuðinu frameftir nóttu í Hörpu eftir viku ásamt félögum sínum í Stuðmönnum.
Þau Ragnhildur og Egill ætla að halda uppi stuðinu frameftir nóttu í Hörpu eftir viku ásamt félögum sínum í Stuðmönnum. Vísir/Daníel
„Vid erum líkt og íslenski hesturinn, vön krefjandi eda öllu heldur mjög örvandi umhverfi. Hæfileg blanda stud-og fjörefnis kemur okkur sídan lèttilega í gegn um thetta. Og hver veit nema vid fàum okkur blund à súrefnistjaldsvædinu í Laugardal nóttina fyrir thessa törn,“ segir Jakob Frimann Magnússon.

Hljómsveitin Stuðmenn ætlar að leggja Hörpu undir sig laugardaginn 6. september er hún heldur tvenna tónleika í Eldborgarsal Hörpu. Þar ætlar sveitin að flétta saman sínum bestu lögum í kringum Tívolí, sem er önnur breiðskífa sveitarinnar og sú sem gat af sér kvikmyndina Með allt á hreinu sem sló svo eftirminnilega í gegn.

Ekki er nóg með að þau Ragnhildur, Egill, Valgeir, Jakob, Tómas, Ásgeir, Eyþór og Guðmundur ætli að vera á sviðinu frá 19.30 til miðnættis heldur ætla þau einnig að bjóða gestum tónleikanna í eftirpartí. Sannkallað Stuðmannaball verður í beinu framhaldi af seinni tónleikunum í Silfurbergi en sveitin hefur ekki komið fullskipuð fram á dansleik síðan árið 2005.

Jakob Frímann lofar að stærstu smellir sveitarinnar muni hljóma og að þetta marki lengstu samfelldu framkomu hljómsveitarinnar síðan á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum árið 1999.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×